Lögreglan í Kaupmannahöfn segir að hún hafi fellt mann sem framdi tvær árásir í borginni í gær sem drógu tvo menn til dauða og særðu þrjá. Maðurinn var felldur eftir skorbardaga nálægt lestarstöðinni við Norðurbrú í nótt. Þetta kom fram á stuttum blaðamannafundi lögreglunnar í morgun. Ekki er talið að árásarmennirnir hafi verið fleiri en einn þótt að enn eigi eftir að rannsaka marga fleti málsins.
Griðarlegur viðbúnaður var í Kaupmannahöfn í alla nótt.
Talinn hafa ætlað að myrða skopmyndateiknara
Maðurinn hóf skotárás á menningarhúsið Kruttønden á Austurbrú í Kaupmannahöfn síðdegis í gær. Þar stóð yfir ráðstefna um tjáningarfrelsi Einn lést í þeirri árás og þrír lögreglumenn særðust. Ekki hefur verið greint frá því hver sá látni er en talið er að skotmark árásarmannsins hafi verið sænski skopmyndateiknarinnar Lars Vilks, sem var á meðal fyrirlesara á ráðstefnunni.
Lars Vilks.
Vilks hefur notið lögregluverndar árum saman þar sem honum hefur áður verið sýnt banatilræði, en hann hefur teiknað skopmyndir af Múhammeð spámanni og verið kallaður hinn sænski Kurt Westergaard. Vilk slapp ómeiddur frá árásinni. Honum var komið í skjól í eldhúsi menningarhússins af lífvörðum sem gættu hans.
Flúði á dökklituðum Polo
Eftir að hafa hleypt af um 40 skotum flúði maðurinn á dökklitum Volkswagen Polo. Upphaflega var talið að ódæðismennirnir hefðu verið tveir en þegar leið á leitina af þeim kom í ljós að maðurinn var einn að verki. Bifreiðin fannst síðar yfirgefin og var talið að maðurinn hefði skipt um flóttabíl.
Gríðarlegur viðbúnaður var í Kaupmannahöfn og var allt tiltækt lögreglulið kallað út til að leita að manninum.
Skömmu eftir klukkan ellefu að íslenskum tíma var svo tilkynnt um skotárás við samkomuhús gyðinga í Kaupmannahöfn. Þar skaut hann mann sem aðstoðar við fermingu í höfuðið með þeim afleiðingum að hann lést.
Nokkrum klukkustundum síðar ætlaði árásarmaðurinn í íbúð sem lögreglan hafði fylgst með á Norðurbrú. Þegar hann varð lögreglu var hóf hann skothríð á lögreglumenn sem felldu hann skömmu síðar. Lögreglan telur að sami maður hafi verið að verki í báðum árásunum og að ódæðismennirnir séu ekki fleiri. Hún lagði líka áherslu á að íbúar Kaupmannahafnar væru algjörlega frjálsir ferða sinna þrátt fyrir mikinn viðbúnað lögreglu.
Minnir á Charlie Hebdo-árásina
Árásirnar í Kaupmannahöfn hafa verið settar í samhengi við árásirnar á höfuðstöðvar franska skopmyndablaðsins Charlie Hebdo í síðasta mánuði. Þar létust tólf, þar á meðal nokkrir af frægustu skopmyndateiknurum blaðsins. Árásarmennirnir voru tveir bræðurnSaid Kouachi og Cherif Kouachi. Þeir réðust sérstaklega á blaðið, og ákveðna starfsmenn þess, vegna teikninga sem það hafði birt af Múhammeð spámanni.
Teikningar Charlie Hebdo af Múhameð spámanni hafa valdið mikilli ólgu víðsvegar um heiminn.
Maður sem sagðist vera vitorðsmaður bræðranna, Amedy Coulibaly, myrti síðar lögreglukonu í París. Hann réðst síðar inn í verslun sem rekin er af gyðingum í austurhluta Parísar og hélt þeim sem þar voru fyrir í gíslingu. Coulibaly var felldur í áhlaupi lögreglu en áður hafði hann drepið fjóra gísla. Bræðurnir voru líka drepnir í áhlaupi lögreglu sama dag.