Bólusetningar barna á aldrinum 12-15 ára eru til skoðunar hjá sóttvarnalækni og það kemur mjög líklega að því að mælst verði til þessi aldurshópur verði bólusettur gegn COVID-19, en bæði bóluefni Pfizer og Moderna hafa fengið markaðsleyfi í Evrópu í þessum aldurshópi.
Í dag geta foreldrar beðið um bólusetningu fyrir börn á þessu aldursbili og hafa alls 2.461 börn í þessum hópi þegar fengið að minnsta kosti eina sprautu.
Ef ákveðið verður að hvetja þennan hóp sérstaklega til þess að þiggja bólusetningu, eða þá öllu heldur foreldra barna á þessum aldri, þyrfti að hugsa upp á nýtt hvernig þær fjöldabólusetningar færu fram.
Praktísk atriði
Kamilla Sigríður Jósefsdóttir sérfræðingur hjá sóttvarnalækni sagði á upplýsingafundi almannavarna í dag að það horfði öðruvísi við þegar verkefnið væri að bólusetja 12-15 ára unglinga sem væru ekki komnir sjálfviljugir í bólusetninguna.
Það yrði ekki gert við sambærilegar aðstæður og voru í fjöldabólusetningunni í Laugardalshöll. „Þá þarf að gera nýtt skipulag sem er ekki til, og þetta þarf allt að undirbúa vel,“ sagði Kamilla.
„Ógnvekjandi“ aukaverkanir
Hún var spurð út í áhættumat barnabólusetninga á upplýsingafundi dagsins, þar sem hún leysti Þórólf Guðnason sóttvarnalækni af hólmi. Spurningin var um það hvort hættan af bólusetningu barna 12-15 ára væri meiri en áhætta þeirra af því að smitast af COVID-19.
„Það eru aukaverkanir varðandi hjartavöðvabólgu og sérstaklega gollurshúsbólgu, sem er sekkurinn í kringum hjartað, sem geta verið mjög ógnvekjandi en ganga sem betur fer yfir af sjálfu sér, jafnvel án meðhöndlunar. En geta verið mjög ógnvekjandi, því einkennin eru mæði og brjóstverkur sem maður vill ekki sjá hjá barninu sínu,“ sagði Kamilla.
Hún bætti því við að þessi aukaverkun bóluefnanna væri algengari hjá einstaklingum undir þrítugu og að því miður virtist algengið aukast eftir því sem fólk væri yngra.
„Við viljum fara varlega í sakirnar en það kemur mjög líklega að því miðað við ástandið í bylgjunni núna að við munum mæla með bólusetningu ungmenna líka,“ sagði Kamilla.