Hvaða áhrif ætli COP 26 hafi á loftslagsmálin? Fréttir af ráðstefnunni gefa til kynna að ríkisstjórnir heimsins virðist seint ætla að gera nóg til þess að stemma stigu við hlýnun jarðar. Loftslagsvandinn er ógnvænlegur - sumir halda því jafnvel fram að nú sé síðasti séns að afstýra loftslagshamförum.
Eitt af því sem gefur von, er ný áhersla á heftingu metanlosunar, því þannig má hægja á hlýnun loftslags verulega. Þessa áherslubreytingu má meðal annars merkja á Biden Bandaríkjaforseta.
Metan (CH4) er tugfalt öflugri gróðurhúsalofttegund en koldíoxíð (CO2) og í raun skrítið að það hafi ekki verið hugað betur að heftingu losunar þess en raun ber vitni. Skv. nýlegri skýrslu UNEP má einmitt nokkuð auðveldlega hægja á hlýnun verulega innan 20 – 25 ára, -með því einu að hefta metanlosun af mannavöldum um tæplega helming.
Upplýsingaóreiða og offramboð
Upplýsingar og gegnsæi eru mikilvægir þættir nútímasamfélags en of mikið af misvísandi upplýsingum virkar lamandi á lýðræðissamfélög. Og upplýsingar, hvað þá mótsagnakenndar, margslungnar og flóknar er erfitt að melta hvað þá skilja, vita hvað er rétt eða rangt.
Markmið þessarar greinar er að vísa á möguleika til að hefta metanlosun á Íslandi, ekki síst fyrir samviskusamt loftslagskvíðið mannfólk.
Lífsnauðsyn mannkyns: Náttúran
Lífkerfin, hvað þá samspil þeirra í milli og við hinn lífvana hluta heimsins eru gríðarflókin. Þjóðfélög nútímans gera hins vegar ríka kröfu um sannanir fyrir tilvist loftslagsvandans, og loks er svo komið að þúsundir vísindafólks og rannsókna hafa sýnt fram á tilvist vandans. Það er erfitt að skilja þetta allt saman, bara á færi sérfræðinga í rauninni. Í viðbót eru lausnarkerfin, Kyoto, París, COP, ETS osfrv...
Þó við eigum í erfiðleikum með að skilja náttúruna grundvallast hún á afdráttarlausum ófrávíkjanlegum grunni sem við köllum náttúrulögmál. Þau eru staðreyndir (sem á alls ekki við um markaðslögmálin) og lífsnauðsyn að hrófla ekki við þeim . Lífkerfin og við sem tegund byggjum á þeim.
Hvað áhrærir loftslagsvandann er best að skoða hringrásarlögmálið, kolefnishringrásina nánar tiltekið. Þ.e. kolefni flyst milli lofts, sjávar og lands. Fyrir iðnbyltingu voru kolefnishlutföll í hólfunum þremur stöðug á heildina litið og lífkerfin eftir því. Hægt og bítandi var og er enn kolefni aukið í lofti sem leiddi af sér keðjuverkun sem ekki sér fyrir endann á. Aukið kolefni í lofti veldur hitnun, sem veldur álagi á lífkerfi, súrnun sjávar osfrv. Það er í raun nóg að vita þetta og traust leiðarljós að taka ávallt mið af náttúrulögmálunum - við almenningur þurfum ekki að meta og skilja allar niðurstöður allra rannsóknanna eða umræðuna um þær.
Réttlát umskipti
Fyrr á árinu kynntu BSRB, ASÍ og BHM nýja skýrslu: Réttlát umskipti, sem félögin stóðu að í samfloti við systurfélög á Norðurlöndum og Þýskalandi. Í skýrslunni er kallað eftir réttlátari skiptingu byrða vegna loftslagsvandans.
Í skýrslunni segir m.a.: „Réttlát umskipti í átt að kolefnishlutlausri framtíð er brýnasta umhverfis-, samfélags- og efnahagsmál samtímans“ og „ Stjórnvöld þurfa að vera skipulögð og fumlaus í aðgerðum og forðast að láta markaðinn ráða ferðinni því markaðurinn er blindur á félagslegar afleiðingar og hann dýpkar ójöfnuðinn sem þegar er til staðar”.
Ójöfnuðurinn er augljós þegar rafbílavæðingin er skoðuð. Rafbílar eru vissulega mikilvægur liður í orkuskiptunum en því miður ekki á færi allra að kaupa þá. Þrátt fyrir niðurfellingu vörugjalda og virðisaukaskatts af rafbílum hafa ekki allir efni á þeim. Tekjulágir eiga iðulega eldri bíla sem ganga fyrir bensíni og dísil og greiða þá gjöld sem sett eru á slíka bíla og á jarðefnaeldsneytið. Sömu álögur þurfa rafbílaeigendur ekki að greiða. Réttlátara væri að gefa tekjulágum færi á loftslagshlutlausari kostum á viðráðanlegum kjörum. Undirrituð telur metanbíla og aukna vinnslu metans vera skynsamlegan kost fyrir stjórnvöld að skoða.
Metanfararskjótar á umskiptatímanum
Á Íslandi er framboð á nýjum og notuðum metanbílum frekar lítið og því væri sniðugt að koma á fót vönduðum breytingarverkstæðum, þar sem bensínbílum er breytt í metan/bensínbíla. Ríkið myndi síðan niðurgreiða breytinguna fyrir tekjulága og tryggja gæði þjónustunnar því stíft eftirlit er nauðsynlegt. Þar að auki þyrfti að tryggja metanframboð til lengri tíma, og halda verðinu stöðugu.
Metangas(CH4) er úrgangsefni ákveðinna niðurbrotsörvera sem lifa í súrefnissnauðu umhverfi, en svo heppilega vill til fyrir okkur, að það er álíka orkuríkt og bensín. Manngerð metanlosun hérlendis á sér helst stað í landbúnaði og í vinnslu og meðhöndlun úrgangs. Metan er líka álitlegur hluti jarðgass og lekar úr vinnslu losna út í andrúmsloft. Eins er algengt að gasleiðslur leki metani.
Blessaður úrgangurinn
Þegar matar - og garðúrgangur (lífúrgangur) lendir í urðun myndast hauggas, m.a. metan sem losnar út í andrúmsloft. Hauggasi er safnað á stærri urðunarstöðum, það brennt eða ef kaupendur fást er metangasið selt (Reykjavík og Akureyri). Urðun er hins vegar afleit úrgangsmeðhöndlun m.a. af því að alltaf sleppur álitlegur hluti gassins út í andrúmsloftið þrátt fyrir söfnun. Af þessum sökum hefur Evrópusambandið takmarkað urðun lífúrgangs með löggjöf. Svíar bönnuðu meira að segja urðun lífúrgangs strax 2005.
Gas- og jarðgerð
Með samræmdri gas- og jarðgerð (SORPA er með einu stöðina á Íslandi) næst mjög góð nýting lífúrgangs. Því niðurbrotsferli er stýrt og öllu metangasi er safnað, það brennt eða selt sem eldsneyti. Niðurbrotsörverurnar (metanmyndandi) og stöðugt umhverfi fyrir þær, er lykilþáttur í gasgerð. Hvað jarðgerð áhrærir er nauðsynlegt að sérflokka lífúrgang til að moltan verði gagnleg í ræktun. Þetta er löngu þekkt. Sérflokkun lífúrgangs hefur loksins verið innleidd í íslenska löggjöf, þökk sé Evrópusambandinu. Nánar tiltekið er þessi krafa í Hringrásarhagkerfispakkanum sem gefur ansi góðan ramma um meðhöndlun úrgangs og fleira. Vonandi næst að koma sérsöfnun á laggirnar hvarvetna á Íslandi árið 2023.
Meðferð lífúrgangs getur semsagt stuðlað að loftslagsvernd, eða öfugt, mögnun hlýnunar.
Að lokum: Talsvert hefur verið talað um metan losun úr landbúnaði. Á stundum hefur umræðan verið mjög polariseruð þar sem bændur, nautgripir og sauðkindin eru gerð að blóraböggli. Vonandi auðnast hlutaðeigandi að taka höndum saman og leysa verkefnið farsællega. Hvað varðar lífúrgang mætti koma upp svipuðu kerfi og í Þýskalandi, þar sem þúsundir bænda stunda gas- og áburðarframleiðslu, eftir að þýsk stjórnvöld stýrðu þeim í þá átt.
Vinnum saman í því sem er gerlegt og skynsamlegt, það slær á loftslagskvíðann.
Höfundur er umhverfis- og auðlindafræðingur.