Magnús Þór Jónsson hefur verið kosinn nýr formaður Kennarasambands Íslands (KÍ), að því er fram kemur í tilkynningu frá sambandinu.
Nýkjörinn formaður tekur við formennsku af Ragnari Þór Péturssyni á áttunda þingi Kennarasambandsins sem fram fer í apríl á næsta ári. Ragnar Þór lætur þá formlega af embætti en hann hefur gegnt formennsku í KÍ frá árinu 2018. Forveri hans var Þórður Árni Hjaltested sem sat á formannsstóli 2011 til 2018. Eiríkur Jónsson var fyrsti formaður KÍ, gegndi formennsku frá 2000 til 2011.
Fjögur voru í framboði. Anna María Gunnarsdóttir hlaut 2.171 atkvæði eða 32,51 prósent, Hanna Björg Vilhjálmsdóttir hlaut 1.083 atkvæði eða 16,22 prósent, Heimir Eyvindsson hlaut 522 atkvæði eða 8,27 prósent, Magnús Þór Jónsson hlaut 2.778 atkvæði eða 41,61 prósent og voru auðir seðlar 93 eða 1,39 prósent. Á kjörskrá voru 11.068 og greiddu 6.676 atkvæði, eða 60,32 prósent.
Atkvæðagreiðslan var rafræn og hófst klukkan 12:00 mánudaginn 2. nóvember og lauk klukkan 14.00 í dag.