Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík, segir að málefnin muni ráða för í meirihlutaviðræðum Framsóknarflokks við þrjá flokka fráfarandi meirihluta í borginni: Samfylkinguna, Pírata og Viðreisn.
„Ég vil segja fyrir mitt leyti að ég er ánægður með að hefja þessar viðræður. Við sjáum hvert þær leiða,“ sagði Einar í upphafi blaðamannafundar flokkanna fjögurra í Grósku í dag. Hann segir Framsókn fara inn í viðræðurnar með umboð til breytinga og segist hann skynja vilja hjá öðrum flokkum til þess.
Aðspurð um hversu langan tíma flokkarnir ætli að gefa sér í viðræðurnar var lítið um skýr svör en Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði að flokkarnir líti til tveggja dagsetninga í því samhengi. Annars vegar 1. júní þegar umboð núverandi meirihluta rennur út og hins vegar 7. júní þegar fyrsti fundur nýrrar borgarstjórnar fer fram. „Við horfum á þessar tvær dagsetningar en ætlum ekki að setja okkur óþarflega skamman tíma,“ sagði Dagur. Þetta byrjar allt með samtalinu, bætti Einar
Einar boðaði bakland sitt á fund í gærkvöldi þar sem það sem virðist vera eini möguleikinn í stöðunni sem stendur var ræddur: meirihluti með Samfylkingu, Pírötum og Viðreisn. Heimildir Kjarnans herma að Framsókn muni gera þá kröfu að Einar verði borgarstjóri allt kjörtímabilið ef af samstarfinu verði.
Dagur setur flokkunum ekki úrslitakosti um borgarstjórastól
Dagur segist ekki hafa gengið til meirihlutaviðræðna sem nú eru hafnar með neina úrslitakosti. „En við höfum sammælst um að ræða málefnin fyrst og verkaskiptinguna í lokin,“ sagði Dagur. Hann segir málefnaleg samleið að finna víða innan flokkanna. „Þar sem er sérstaða þurfum við að ræða sérstaklega. Ég kvíði því alls ekki, það getur komið eitthvað áhugavert út úr þeim samræðum.“
Einar vill ekki setja flokkunum í meirihlutaviðræðunum afarkosti um að fara fram á borgarstjórastólinn. Hann segist vita að Framsóknarflokkurinn geri kröfu um það en bendir á að stu’ningsfólk annarra flokka vilji líka að oddvitar þeirra gegni embætti borgarstjóra.
Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pirata, segir það hafa verið gagnegt, uppbyggilegt og lýðræðislegt að hafa fjóra flokka í meirihluta. Hún segir ekki tímabært að ræða óskahlutverk. „Ég held að við finnum einhverja ásættanlega lendingu fyrir okkur öll.“