Meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis lítur svo á að Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrverandi innanríkisráðherra, þurfi ekki að gera frekari grein fyrir lekamálinu svokallaða, málinu hvað hana varðar hafi lokið með áliti umboðsmanns Alþingis, sem birt var 8. janúar síðastliðinn.
Vigdís Hauksdóttir, þingmaður og fulltrúi Framsóknarflokks í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, greinir frá niðurstöðu meirihlutans á Facebook-síðu sinni.
Þá telur meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að Hanna Birna hafi þar að auki axlað pólitíska ábyrgð á lekamálinu svokallaða með afsögn sinni sem ráðherra.
Undir álit meirihlutans skrifa auk Vigdísar þingmennirnir Karl Garðarsson, Haraldur Einarssson, Brynjar Níelsson og Sigríður Andersen, vara þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem tók sæti á Alþingi þegar Hanna Birna fór í leyfi frá þingstörfum eftir afsögn sína sem innanríkisráðherra.