Deilum um útboð Reykjavíkurborgar á hleðslustöðvum virðist vera lokið, í bili hið minnsta, með ógildingu Héraðsdóms Reykjavíkur á úrskurði kærunefndar útboðsmála frá 11. júní. Sá úrskurður leiddi til þess að 156 hleðslustöðvum Orku náttúrunnar í Reykjavík þurfti að loka í um hálft ár.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkurí þessu máli er mjög afdráttarlaus. Raunar fær kærunefnd útboðsmála aðeins á baukinn fyrir það hvernig meðferð málsins var háttað fyrir nefndinni.
Í dómnum, sem kveðinn var upp 23. nóvember, segir að kærunefndinni hefði borið að vísa tilteknum kröfum fyrirtækinu Ísorku í málinu frá um leið og þær bárust – þar á meðal kröfunni um að samningurinn sem um ræðir væri óvirkjaður og þar með allar hleðslustöðvarnar.
Ástæðan fyrir því að vísa hefði átt þeirri kröfu frá, að mati héraðsdóms, var sú að hún kom of seint fram, en hún var ekki hluti af upphaflegum málatilbúnaði Ísorku vegna útboðsins, sem beindist bæði gegn Orku náttúrunnar og Reykjavíkurborg. Kæra barst frá Ísorku 8. október í fyrra, en Ísorka bætti svo við kröfugerð sína þann 8. febrúar á þessu ári.
Dómari við héraðsdóm kemst að þeirri niðurstöðu í málinu að kærunefnd útboðsmála hafi við meðferð kröfu Ísorku farið á svig við ýmsar lagareglur sem gilda um störf og hlutverk kærunefndarinnar.
Kærunefndin réðist í könnun án lagaheimildar
Sú ákvörðun nefndarinnar að ráðast í sérstaka könnun að eigin frumkvæði á því hvort útboðið hefði í raun verið útboð á sérleyfi, og ef svo væri, útboðs- eða tilkynningarskylt á Evrópska efnahagssvæðinu, er ekki talin hafa byggst á lögum. Hún byggðist heldur ekki á upphaflegu umkvörtunarefni Ísorku vegna útboðsins.
„Ekki verður séð að kærunefndin hafi heimildir að lögum til að leggja mál í allt annan farveg en kærandinn hefur búið mál sitt til nefndarinnar í,“ segir í dómnum og einnig að könnunin virðist ekki eiga sér stoð í lögum um opinber innkaup – hún hafi verið gerð án tilefnis frá kæranda og án tengsla við kröfugerð Ísorku.
Einnig leggur dómari áherslu á það að kærunefnd útboðsmála skuli samkvæmt lögum leysa með skjótum hætti úr málum og kveða upp úrskurði eins fljótt og auðið er. Það hafi ekki verið gert, heldur hafi úrskurður um óvirkni samningsins um hleðslustöðvarnar litið dagsins ljós átta mánuðum eftir að samningurinn tók gildi og samningsaðilar hófu að efna hann, með tilheyrandi kostnaði við kaup og uppsetningu hleðslustöðva.
„Virðist nokkuð viðurhlutamikið að svo íþyngjandi úrræði sé beitt á grundvelli kröfu sem fyrst kom fram fjórum mánuðum eftir að samningurinn tók gildi,“ segir í dómnum.
Einnig segir dómari í niðurstöðu sinni að ekki fáist séð að niðurstaða kærunefndarinnar um það að leyfa Reykjavíkurborg ekki að taka afstöðu til endanlegrar framsetningar málskostnaðarkröfu Ísorku hafi samræmst reglum stjórnsýsluréttar um meðalhóf.
„Mikið áhorfsmál“ að um sérleyfissamning hafi verið að ræða
Í dómi héraðsdóm er vafi einnig dreginn yfir þá niðurstöðu kærunefndar útboðsmála að samningurinn um hleðslustöðvarnar hefði fallið að skilgreiningum laga um opinber innkaup á sérleyfissamningi. Það er sagt „mikið áhorfsmál“.
Í öllu falli telur héraðsdómur það orka verulegs tvímælis hvaða fjárhæðir voru lagðar til grundvallar þeirra ályktana sem settar voru fram í niðurstöðu kærunefndarinnar.
Útreikningarnir hjá kærunefndinni hafi hreinlega verið rangir, samningsfjárhæð samningsins sem boðinn var út hafi ekki náð lágmarksviðmiði, 697,4 milljónum, sem þarf til að samningurinn geti talist útboðsskyldur á Evrópska efnahagssvæðinu.
Málsmeðferð kærunefndar er sögð „verulegum annmörkum háð“ í dómi héraðsdóms og þar segir að fyrir utan aðra galla við málsmeðferðina hafi þær tvær ástæður sem hér voru nefndar til sögunnar átt að leiða til þess að málinu yrði vísað frá.
Að sögn talsmanns Orku náttúrunnar hefur ekki verið tekin nein ákvörðun um hvort reynt verði að sækja skaðabætur til hins opinbera vegna málsmeðferðar kærunefndar útboðsmála og óvirkjunar samningsins.