Péter Márki-Zay verður forsætisráðherraefni ungversku stjórnarandstöðunnar í þingkosningum sem fram fara í landinu á næsta ári, en hann hafði betur í seinni umferð forvals stjórnarandstöðunnar, sem lauk í gær.
Márki-Zay, sem er óflokksbundinn íhaldsmaður og borgarstjóri í lítilli borg sem heitir Hódmezővásárhely, hafði betur gegn Klöru Dobrev, leiðtoga Lýðræðisbandalagsins, í seinni umferð leiðtogakjörsins, með 57 prósentum atkvæða.
Naut stuðnings borgarstjórans í Búdapest
Dobrev, sem er varaforseti Evrópuþingsins, hlaut flest atkvæði í fyrri umferð forvalsins. Í kjölfar þess að hún vann þann sigur ákvað Gergely Karácsony, borgarstjóri í Búdapest, sem ásamt þeim tveimur vann sér einnig inn þátttökurétt í seinni umferðinni, að draga sig úr baráttunni og lýsa yfir stuðningi við Márki-Zay, sem hlaut að endingu meirihluta atkvæðanna.
Stuðningur við Márki-Zay var einmitt yfirgnæfandi í Búdapest, á meðan að Dobrev naut meira fylgis í dreifbýli.
Hann mun því leiða kosningabandalag sex stærstu flokkanna í ungversku stjórnarandstöðunni, sem sett hefur verið saman til höfuðs Viktori Orbán og Fidesz-flokki hans, sem hefur verið við völd í rúman áratug.
Fulltrúi sameinaðrar stjórnarandstöðu í borgarstjórn
Márki-Zay er ekki ókunnugur því að takast á við Fidesz-flokkinn, því hann var einmitt fulltrúi sameinaðrar stjórnarandstöðu í borgarstjórnarkosningunum í Hódmezővásárhely, sem er lítil borg í sunnanverðu Ungverjalandi, árið 2018.
Þar náði hann að hafa betur, þrátt fyrir að Fidesz-flokkurinn hafi verið með yfirburðastöðu í borginni. Hefur kosningasigur hans verið nefndur sem fyrirmynd að því samstarfi stjórnarandstöðuflokkanna á landsvísu nú.
Márki-Zay, sem er 49 ára gamall sjö barna faðir, hefur lýst því yfir að hann ætli sér að sameina stjórnarandstæðinga bæði til hægri og vinstri í breiðfylkingu gegn Orbán og ólýðræðislegum tilburðum stjórnar hans.
„Við viljum nýtt, hreinna, heiðarlegra Ungverjaland,“ sagði Márki-Zay við stuðningsmenn sína í gær.
Í umfjöllun þýska miðilsins DW er haft eftir ungverska stjórnmálafræðingnum Peter Kreko að sú staðreynd að Márki-Zay sé íhaldsmaður kunni að verða honum og stjórnarandstöðunni til tekna.
Kreko segir að það muni reynast ráðandi öflum erfitt að teikna leiðtoga stjórnarandstöðunnar upp sem vinstrisinnaðan vopnabróður frjálslynda auðjöfursins George Soros, sem Orbán hefur á undanförnum árum talað um sem óvin ríkisins.
„Auðvitað munu þeir reyna, en það verður tvímælalaust erfiðara,“ segir Kreko.
Skoðanakannanir benda til þess að litlu sem engu muni á fylgi sameinuðu stjórnarandstöðunnar og Fidesz-flokk Orbáns og því er útlit fyrir spennandi kosningar í Ungverjalandi í apríl.