Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, íhugar að bjóða sig fram gegn Hildi Björnsdóttur verði af boðuðu leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Þar er haft eftir Mörtu að margir hafi hvatt hana til að gefa kost á sér til að leiða listann og fyrir það sé hún þakklát „Ég vil taka málið til gaumgæfilegrar athugunar og þá í samráði við mína fjölskyldu og mitt bakland, þar sem þetta er stór ákvörðun sem maður tekur ekki einn.“
Miðað við boðuð áform um leið til að velja á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík mun Marta etja kappi við Hildi Björnsdóttur um fyrsta sætið, en hún er sú eina sem formlega hefur tilkynnt að hún sækist eftir því. Þær hafa boðað afar ólíkar áherslur í ýmsum lykilmálum í borginni, sérstaklega þegar kemur að skipulagsþróun Reykjavíkur og höfuðborgarsvæðisins alls.
Eyþór Arnalds, sitjandi oddviti, tilkynnti nokkrum dögum fyrir jól í fyrra að hann myndi ekki gefa kost á sér til áframhaldandi forystu og að hann ætlaði yfirgefa stjórnmálin. Áður hafði hann lýst yfir þeirri ætlan að sækjast áfram eftir sæti oddvita.
Leiðin skýrist í vikunni
Á fundi Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaga í Reykjavík, snemma í desember var ákveðið að efna til leiðtogaprófkjörs fyrir komandi borgarstjórnarkosningar í Reykjavík. Það er sama leið og var farin fyrir kosningarnar 2018.
Fulltrúaráð Sjálfstæðisflokksins þarf að samþykkja leiðina til að hún verði að veruleika með 2/3 hluta atkvæða.Gangi það eftir verður kosið í kjörnefnd til að fylla önnur sæti á listanum.
Fulltrúaráðið, sem átti upphaflega að funda um málið 4. janúar, hefur hins vegar ekki haldið fund til að greiða atkvæði um stöðuna. Búist er við því að hann fari fram næstkomandi fimmtudag, mánuði eftir að hann átti upphaflega að vera haldinn.