Í drögum að nýrri umferðaröryggisstefnu áranna 2023 til 2037 segir að það láti nærri að sjálfvirkt meðalhraðaeftirlit á vegum landsins sé arðbærasta verkefnið sem stjórnvöld geti ráðist í til að auka umferðaröryggi og að innleiðing slíks eftirlits með umferð á vegum landsins verði í forgangi á næstu árum.
Ávinningurinn, í formi lægri slysakostnaðar, er sagður geta verið um tífalt meiri en tilkostnaðurinn við uppsetningu myndavélakerfanna.
Við meðalhraðaeftirlit eru teknar myndir með tveimur myndavélum af hverju ökutæki og er meðalhraðinn á veginum milli myndavélanna reiknaður út frá fjarlægð milli vélanna og tíma milli mynda. Rannsókn í Noregi, sem vísað er til í drögunum frá innviðaráðuneytinu, sýndi að alvarlegum slysum fækkaði til muna á vegköflum þar sem þetta eftirlit var tekið upp, eða um 49-54 prósent.
Notkun meðalhraðaeftirlits hófst í fyrsta sinn hérlendis í fyrra, en þá var slíkum eftirlitsbúnaði komið fyrir á Grindavíkurvegi og í Norðfjarðargöngum.
Eitt nýtt yfirmarkmið kynnt til sögunnar
Nýja áætlunin er samkvæmt drögunum, sem hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda, að mestu eins og sú sem nú þegar er í gildi. Þó bætist við eitt nýtt yfirmarkmið um að slysakostnaður á hvern ekinn kílómetra lækki að jafnaði um 5 prósent á ári til ársins 2037.
Önnur yfirmarkmið í áætluninni eru þau sömu og áður, að Ísland verði í fimm bestu Evrópuþjóða hvað varðar fjölda látinna í umferðinni á hverja 100 þúsund íbúa og að látnum og alvarlega slösuðum fækki að jafnaði um 5 prósent á ári fram til ársins 2037.
Á árunum 2017-2021 voru látnir í umferðinni á Íslandi rúmlega 3 að meðaltali á hverja 100 þúsund íbúa, sem skilar Íslandi 8. sæti á lista Evrópuþjóða sem sakir standa. Á síðasta ári taldi sá hópur sem slasaðist alvarlega eða lést í umferðinni yfir 200 manns og ef framsett markmið áætlunarinnar ættu að nást mættu einungis 80 manns slasast alvarlega eða látast í umferðinni árið 2037.
Til viðbótar við yfirmarkmiðin þrjú eru sett fram alls tólf undirmarkmið, sem eru eftirfarandi:
Eitt þessara markmiða er nýtt frá fyrri áætlun, en það er markmiðið sem snertir á því að eldri ökumönnum sem eiga aðild að alvarlegum slysum og banaslysum fækki um fimm prósent árlega.
Markmið stjórnvalda að 95 prósent fullorðinna noti hjálm á hjóli
Ýmis frammistöðumarkmið eru svo sett fram í drögunum, en þau eru að mestu leyti þau sömu og hegðunarmarkmið gildandi áætlunar.
Meðal framsettra markmiða er að árið 2037 noti 95 prósent fullorðinna reiðhjólahjálm er þau ferðast um á reiðhjóli. Þetta er aukning um 5 prósentustig frá markmiði gildandi umferðaröryggisáætlunar, en kannanir sem gerðar hafa verið t.d. á vegum tryggingafélaga hafa á undanförnum árum sýnt að um og yfir 90 prósent þeirra sem hjóla um í Reykjavík noti hjálm.
Einnig eru sett háleitari markmið um notkun síma undir stýri, en í fyrri áætlun var sett fram það markmið að hlutfall ökumanna sem segðust aldrei tala í síma án handfrjáls búnaðar undir stýri yrði hærra en 50 prósent. Í drögum að nýrri áætlun er þetta hlutfall fært upp í 90 prósent.
Fólksbílaflotinn verði ekki eldri en 8 ára að meðaltali
Að auki eru ný markmið sett fram um bílaflotann, sem ekki eru í gildandi umferðaröryggisáætlun. Undir liðnum öruggari ökutæki eru sett fram þau markmið að meðalaldur fólksbifreiða í umferð verði ekki meiri en 8 ár, og að hlutfall ökutækja yfir 7,5 tonn að þyngd sem standist bifreiðaskoðun verði 75 prósent. Árið 2020 var meðalaldur fólksbíla í umferð 9,86 ár, samkvæmt tölum frá Samgöngustofu.
Hið sama á við um vegakerfið, en sett eru fram markmið í nýju drögunum um að öll ný eða endurbætt umferðarmannvirki verði látin lúta reglum um umferðaröryggisrýni, og að hlutfall stofnvega sem teknir hafi verið út með heildstæðu umferðaröryggismati verði sömuleiðis 100 prósent.