Hækki ráðstöfunartekjur um 3,5 prósent í komandi kjaraviðræðum myndi það þýða um 79.400 króna hækkun á ársgrundvelli hjá launamanni sem tilheyrir lægsta tekjufjórðungi. Það eru um 6.600 krónur á mánuði. Fyrir einstakling í efsta tekjufjórðungi myndi sama prósentuhækkun skila 337.400 króna hækkun ráðstöfunartekna, eða um 28 þúsund króna hækkun á núverandi mánaðartekjum. Að meðaltali myndi 3,5 prósenta hækku á ráðstöfunartekjum* skila rúmlega 15 þúsund krónum til launamanns á mánuði.
Útreikningarnir miðast við meðaltals ráðstöfunartekjur Meniga-heimila á síðasta ári. Greint var frá því á vef Kjarnans í gær að ráðstöfunartekjur heimila hækkuðu um 6,55% á árinu 2014 og eru að jafnaði 442 þúsund krónur á mánuði. Úrtakið nær til ríflega þrettán þúsund notenda Meniga.
Tekjufjórðungur - Hópur (upphæðir eru í krónum) | |||||
Árshækkanir | 1 | 2 | 3 | 4 | Meðaltal |
Hvers virði er prósentið | 22.698 | 38.654 | 54.542 | 96.424 | 53.082 |
Hvers virði er 3,5% | 79.442 | 135.290 | 190.897 | 337.484 | 185.786 |
Hvers virði er 3,5% jafnt skipt | 185.786 | 185.786 | 185.786 | 185.786 | 185.786 |
Hver yrði sú hækkun | 8,2% | 4,8% | 3,4% | 1,9% | 3,5% |
Mánaðarhækkanir | Tekjufjórðungur - Hópur (upphæðir eru í krónum) | ||||
Mánaðarhækkun | 1 | 2 | 3 | 4 | Meðaltal |
Hvers virði er prósentið? | 1.891 | 3.221 | 4.545 | 8.035 | 4.423 |
Hvers virði er 3,5% | 6.620 | 11.274 | 15.908 | 28.124 | 15.482 |
Hvers virði er 3,5% jafnt skipt | 15.482 | 15.482 | 15.482 | 15.482 | 15.482 |
Hver á hækkunin að vera | 8,2% | 4,8% | 3,4% | 1,9% | 3,5% |
Töflurnar hér að ofan sýna hvaða þýðingu eitt prósenta hækkun annars vegar og 3,5 prósenta hækkun hins vegar á ráðstöfunartekjum hafa í krónum talið fyrir launamann að meðaltali, skipt eftir því hvaða tekjufjórðungi hann tilheyrir. Hópur eitt er tekjulægstur og hópur fjögur sá tekjuhæsti.
Ef 3,5 prósenta launahækkun væri jafn skipt í krónum talið myndi það hafa í för með sér 186 þúsund króna hækkun árslauna. Það samsvarar 8,2 prósenta hækkun ráðstöfunartekna þeirra sem tilheyra lægsta tekjufjórðungi, 4,8 prósenta hækkun hjá næst lægsta tekjufjórðungi, 3,4 prósenta hækkun hjá þeim næst efsta og 1,9 prósenta hækkun hjá efsta tekjufjórðungi.
Segja þetta vera svigrúmið
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Seðlabanki Íslands hafa talað fyrir svigrúmi til launahækkana sem nemur þremur til fjórum prósentum. Kröfur ýmissa stéttarfélaga hafa verið mun hærri og allt að 20 prósent, einkum á lægstu laun.
*Með ráðstöfunartekjum er átt við heildartekjur eftir skatta, meðlag, bætur (þ.m.t. barnabætur, atvinnuleysisbætur, húsaleigubætur og vaxtabætur), styrki, lífeyrisgreiðslur og námslán. Hér er því ekki miðað við hækkun launa heldur ráðstöfunartekna.