Vinnubrögð Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í máli innviðaráðherra hjá forsætisnefnd vegna meintra brota ráðherrans á siðareglum fyrir alþingismenn, voru fráleit að mati Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur, þingmanns Viðreisnar.
Þorbjörg vakti athygli á málinu við upphaf þingfundar í dag þar sem hún sagði Framsóknarflokk og Sjálfstæðisflokk hafa sýnt þinginu og almenningi að það skipti máli hver á hlut við afgreiðslu mála er varða brot á siðareglum ráðherra. Þingmenn flokkanna tveggja í forsætisnefnd hafi komið í veg fyrir að málið fengi umfjöllun í siðanefnd. „Með því hafa þeir valdið miklum skaða,“ sagði Þorbjörg.
Málinu vísað frá fimm mánuðum eftir að það barst
Greint var frá því fyrir helgi að fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í forsætisnefnd tóku fyrr í þessum mánuði ákvörðun um að vísa frá erindi sem nefndinni barst um meint brot Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins og innviðaráðherra, á siðareglum fyrir alþingismenn. Fimm mánuðir eru síðan erindið kom inn á borð nefndarinnar.
Erindið snéri að meintum rasískum ummælum sem Sigurður Ingi á að hafa viðhaft um Vigdísi Häsler framkvæmdastjóra Bændasamtakanna á Búnaðarþingi í vor þegar hann vísaði til hennar sem „þeirrar svörtu“.
Þorbjörg sagði vinnubrögðin í málinu hafa verið svo fráleit að ekki hafi einu sinni verið einhugur innan ríkisstjórnarflokkanna um afgreiðsluna. Hún hrósaði Jódísi Skúladóttur, þingmanni Vinstri grænna, fyrir vinnubrögð hennar í málinu. Jódís, sem er varaforseti nefndarinnar, lagði fram bókun ásamt Ásthildi Lóu Þórsdóttur, þingmanni Flokks fólksins og varaforseta í forsætisnefnd, vegna ákvörðunar nefndarinnar um að vísa frá erindi sem nefndinni barst um meint brot Sigurðar Inga.
Þvældist fyrir frá upphafi að um ráðherra var að ræða
Þorgbjörg sagði að þar sem þetta er í fyrsta skipti sem mál sem varðaði brot ráðherra á siðareglum fór fyrir forsætisnefnd þá blasti það við að um var að ræða ákveðin prófstein fyrir Alþingi.
„Það skiptir máli að aðhald siðareglna sé virkt og það skiptir máli að það gildi fyrir alla þingmenn, líka þá þingmenn sem eru ráðherrar. Frá fyrsta fundi blasti við að það þvældist fyrir að um ráðherra var að ræða,“ sagði Þorbjörg.
Þingmenn allra stjórnarandstöðuflokka tóku til máls í upphafi þingfundar um fundarstjórn og gerðu afgreiðslu forsætisnefndar á erindi rasískra ummæla Sigurðar Inga að umtalsefni.
Forsætisnefnd Alþingis barst erindi um meint brot Sigurðar Inga á siðareglum fyrir alþingismenn þann 8. apríl síðastliðinn. Þann 7. júní var Sigurði Inga gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum við forsætisnefnd og upplýsingum um málið. Hann upplýsti nefndina um það í tölvupósti sex dögum síðar að hann ætlaði ekki að bregðast frekar við.
Siðareglubrot út af fyrir sig ef ráðherra neitar að svara
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, sagði málið ekki vera flóknara en svo að það væri sett í hendurnar á ráðgefandi siðanefnd „sem í raun spyr ráðherra bara: Voru þetta ummælin? Já eða nei? Ef já, væri niðurstaðan væntanlega sú að farið hefði verið á svig við siðareglur. Ef nei, hvað er þá málið?“
Ef ráðherra neitar hins vegar að svara, eins og í þessu tilfelli, þá ætti það að vera siðareglubrot út af fyrir sig að mati Björns Leví. „Bæði brot á siðareglum ráðherra og þingmanna, brot á þeim heiðarleika sem við búumst við að ráðherrar og þingmenn starfi samkvæmt.“
„Þarna þurfti að klára málið bara kviss bang búmm“
Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, sem er nýliði í forsætisnefnd, gagnrýndi starfshætti nefndarinnar þegar ákveðið var að vísa kærunni frá. „Mikið rosalega lá á. Klukkan tíu kvöldið áður fengum við í nefndinni drög að niðurstöðunni. Það er svona á mörkunum að þetta standist þá starfshætti sem við viljum viðhafa,“ sagði Andrés Ingi. „Þarna þurfti að klára málið bara kviss bang búmm,“ bætti hann við.
Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði siðareglur alþingismanna og eftirlit með framkvæmd þeirra hafa „snúist upp í einhvers konar skrípaleik þar sem þingmenn ýmist hvítþvo hver annan eftir pólitískur flokkslínum eða ná sér niður á hver öðrum eftir pólitískum flokkslínum.“
Hann sagði meðhöndlun á siðareglumálum verða að sjálfstæðu vandamáli sem kasti rýrð á Alþingi og ímynd þess og kallaði eftir því að meint brot á siðareglum fengju faglega umfjöllun. „Þar sem málsmeðferðin er í einhverju lágmarkssamræmi við réttlætisvitund fólksins í landinu,“ sagði Jóhann Páll.
„Á köflum vissi maður ekki hvort maður ætti að hlæja eða gráta“
Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, sagði afgreiðslu málsins hjá forsætisnefnd vekja athygli og sýni að siðareglufyrirkomulagið, eins og það hefur verið viðhaft í þinginu, er í raun ónýtt. „Það bara blasir við þegar þetta er orðið einhvers lags barefli meirihlutaflokkanna gagnvart þeim stjórnarandstæðingum sem verður á í messunni en að sama skapi sé leitað allra leiða til að komast undan því að sama regluverk eigi við þingmenn stjórnarflokka, hvað þá ráðherra. Vegferðin sem farið var í í þessu máli er þannig að á köflum vissi maður ekki hvort maður ætti að hlæja eða gráta út af þeim rökum sem fram voru færð. Ef það er markmið stjórnarflokkanna að eyðileggja siðaregluformatið þá sýnist mér það hafa tekist fullkomlega,“ sagði Bergþór.
Þorbjörg tók þá aftur til máls og sagði kjarna málsins vera að skoða þurfi niðurstöður og lyktir mála út frá því hvaða reglur sé verið að setja. „Hér var verið að setja þá reglu að það gildir annað um ráðherra en þingmenn. Regluverkið er ónýtt, ef ekki verulega hnjaskað.“