Starfsfólk stjórnmálaflokka sem bjóða fram í Reykjavík ræddu það í dag hvort tilefni væri til að bregðast við auglýsingum sem voru birtar í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu í morgun. Áhöld voru um hvort þar væru á ferðinni nafnlausar auglýsingar en slíkar auglýsingar brjóta í bága við lög. Auglýsingarnar voru birtar undir merkjum Betri borgar, en viðmælendur Kjarnans vissu engin deili á Betri borg.
Við upphaf árs árið 2019 tóku gildi lög sem ætlað var að sporna gegn nafnlausum kosningaáróðri sem nokkuð hafði borið á í kosningum árin á undan. Þar er kveðið á um að auglýsingar skuli vera merktar auglýsanda eða ábyrgðarmanni.
Þegar betur var að gáð kom í ljós að nafn ábyrgðarmanns var ritað með agnarsmáu letri í hægra horn auglýsingarinnar og raunar svo smáu að erfitt er að lesa textann í prentútgáfum blaðanna. Í auglýsingunum sem um ræðir er kallað eftir minni spillingu, betri borg og að meirihlutinn verði kosinn í burtu.
Ábyrgðarmaður auglýsinganna er Hilmar Páll Jóhannesson. Hann hefur átt í deilum við borgaryfirvöld í þónokkurn tíma vegna hæðarkóta á lóð sem Loftkastalinn ehf á í Gufunesi en Hilmar á fyrirtækið ásamt konu sinni, Ingu Lóu Guðjónsdóttur. Deilur Loftkastalans og Reykjavíkurborgar hafa staðið yfir í um þrjú ár. Í vikunni kærði Inga Lóa borgarstjóra, Dag B. Eggertsson, fyrir meint brot brot á sveitastjórnarlögum, stjórnsýslulögum, hegningarlögum og upplýsingalögum. Hún kærði einnig embættismennina Björn Axelsson og Harra Ormarsson.
Eftir að í ljós kom að auglýsingin væri merkt ábyrgðarmanni, var tekin sú ákvörðun hjá því starfsfólki stjórnmálaflokka sem Kjarninn hefur rætt við að aðhafast ekkert, enda ekkert ólöglegt á ferð í auglýsingum Betri borgar.