Yfir 90 prósent Kópavogsbúa telja þörf á endurbótum á miðbæ Kópavogs, eða Hamraborgarsvæðinu, samkvæmt nýrri könnun sem gerð var á meðal Kópavogsbúa um miðbæinn. Tæplega 73 prósent svarenda telja mikla þörf á endurbótum.
Í tilkynningu frá Kópavogsbæ segir að könnunin hafi verið gerð að tillögu skipulagsráðs Kópavogs en gerð spurninga og framkvæmd könnunarinnar var í höndum Maskínu. Alls tóku um 1.500 manns þátt í könnuninni, um 500 úr hverju póstnúmeri í Kópavogi, úr 3.000 manna úrtaki sem valið var að handahófi úr Þjóðskrá.
Meirihluti kynnt sér fyrirhugaðar breytingar lítið sem ekkert
Alls lítast um 70 prósent þátttakenda vel eða í meðallagi á tillögur um breytingar á skipulagi svæðisins en 27 prósent aðspurðra líst illa á þær. Meirihluti þátttakenda, 52 prósent, hafði samt sem áður lítið sem ekkert kynnt sér fyrirhugaðar breytingar. Um þriðjungur svarenda hafði kynnt sér skipulagsbreytingarnar í meðallagi vel en tæp 16 prósent höfðu kynnt sér tillögurnar vel.
Þrátt fyrir að almenn ánægja mælist með skipulagstillögurnar í könnuninni þá hafa svarendur töluverðar áhyggjur af því skuggavarp og sviptivindar verði til vandræða. Yfir 60 prósent svarenda telja að hvort tveggja verða mikið eða mjög mikið vandamál í nýju skipulagi Hamraborgarsvæðisins.
Þátttakendur voru einnig spurðir hvað þeim þætti skipta mestu máli að yrði í nýjum miðbæ Kópavogs. Vinsælasta svarið var kaffihús, en það nefndu hátt í 90 prósent svarenda. Næst á eftir komu veitingastaðir en þá nefndu um 84 prósent kjósenda. Um og yfir 75 prósent nefndu Minni verslanir eða sérverslanir, útisvæði fyrir fjölskyldur og börn og loks gróður.
Skipulagsbreytingarnar ekki óumdeildar
Í tilkynningu Kópavogsbæjar kemur fram að könnunin verði höfð til hliðsjónar við nánari útfærslu á skipulagsbreytingum í Hamraborg en til stendur að ráðast í umfangsmiklar framkvæmdir á svæðinu. Fyrirhugað er að byggja 550 íbúðir á svæðinu og að kostnaður við framkvæmdirnar verði um 20 milljarðar.
Fyrr á þessu ári fjallaði RÚV um skipulagsbreytingarnar en í frétt RÚV kom fram að skiptar skoðanir væru á málinu, til dæmis hefði verið stofnaður Facebook-hópurinn Vinir Hamraborgar þar sem margir lýstu yfir andstöðu sinni við áformunum. Einn þeirra var Tryggvi Felixson sem sagði að um stórslys væri að ræða og að bæjaryfirvöld hefðu afhent verktökum skipulagsréttinn. Að hans sögn hefði ekkert tillit verið tekið til íbúa svæðisins.
Fulltrúar minnihlutans gagnrýndu einnig fyrirhugaðar framkvæmdir og sögðu meðal annars skort hafa verið á samráði.