Rúmlega 60 prósent landsmanna eru andvíg núverandi kvótakerfi í sjávarútvegi, samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar Prósents sem birt er í Fréttablaðinu í dag. Tuttugu prósent þeirra sem tóku afstöðu í könnuninni segist vera mjög eða frekar hlynnt kerfinu en 61 prósent frekar eða mjög andvíg því.
Konur eru töluvert andvígari kerfinu en karlar og íbúar höfuðborgarsvæðisins eru einnig andvígari því en íbúar á landsbyggðinni.
Mestur stuðningur við kerfið er hjá þeim sem eru 65 ára eða eldri og þeim tekjuhæstu. Andstaðan við kvótakerfið er mest í aldurshópnum 35 til 44 ára. 71 prósent fólks á þeim aldri er andvígt kerfinu en þrettán prósent styðja það.
Hagur sjávarútvegsfyrirtækja landsins, samtala arðgreiðslna og aukins eigin fjár þeirra, hefur vænkast um meira en 500 milljarða króna frá bankahruni. Geirinn greiddi sér meira út í arð árið 2020 en hann greiddi í öll opinber gjöld. Í fréttaskýringu Kjarnans um málið sem birt var í september á síðasta ári kom m.a. fram að heildararðgreiðslur út úr sjávarútvegi frá byrjun árs 2016 og út árið 2020 námu 70,5 milljörðum króna. Á sama tímabili hefði geirinn greitt 35,9 milljarða króna í veiðigjöld, eða rétt rúmlega 50 prósent af þeirri upphæð sem eigendur sjávarútvegsfyrirtækja höfðu fengið í arð.
Haft er eftir Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, í Fréttablaðinu í dag að niðurstöður könnunarinnar komi henni ekki á óvart en að erfitt sé að draga skýrar ályktanir af þeim enda kunni fólk að hafa margar og misjafnar skoðanir á því hvernig megi breyta því kerfi sem er við lýði. „Markmið fiskveiðistjórnunarkerfisins var að koma á sjálfbærum veiðum. Of mörg skip voru að eltast við of fáa fiska. Þorskstofninn hrundi, afkoman var afleit og hið opinbera þurfti ítrekað að veita fyrirtækjum fjárhagslegt liðsinni. Verkefnið var því að tryggja umhverfislega, efnahagslega og samfélagslega sjálfbærni,“ segir hún við Fréttablaðið.
Misbýður sérhagsmunagæslan
Mikil samþjöppun hefur orðið innan kvótakerfisins á undanförnum árum sem leitt hefur til þess að eigendur örfárra sjávarútvegsfyrirtækja hafa efnast verulega, líkt og rakið var í fréttaskýringu Kjarnans síðasta haust. Ítök þeirra í ótengdum geirum hérlendis hafa samhliða vaxið hratt.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar og fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, segir við Fréttablaðið að óréttlæti sé helsta skýringin á andstöðu við kvótakerfið. „Fólki misbýður sérhagsmunagæslan,“ segir hún. „Það er einfaldlega ekki rétt gefið og ríkisstjórnin vill hafa þetta svona. Þegar upp er staðið er varðstaðan um sjávarútveginn meginástæða þess að ríkisstjórnin ákvað að halda áfram samstarfinu. Til þess voru refirnir skornir.“
Könnunin var gerð á netinu dagana 14. til 26. janúar. Úrtakið var 2.300 einstaklingar og svarhlutfall var 50 prósent.