Angela Merkel, kanslari Þýskalands, trónir á toppi uppfærðs lista viðskiptatímaritsins Forbes yfir valdamestu konur heims. Merkel, sem er 59 ára að aldri, hefur algjöra yfirburði í þýskum stjórnmálum og er jafnframt virtasti stjórnmálaleiðtogi í Evrópu.
Í öðru sæti á listanum er Janet Yellen, seðlabankastjóri Bandaríkjanna. Hún var skipuð seðlabankstjóri 14. janúar á þessu ári. Yellen er 67 ára gömul. Hún er fyrsta konan í sögunni til þess að gegna þessu mikilvæga og valdamikla embætti.
Í þriðja sæti á listanum er Melinda Gates, eiginkona Bill Gates, fyrrverandi stjórnarformanns og forstjóra Microsoft, en Melinda fer fyrir sjóði þeirra hjóna sem hefur það að markmiði að styðja við þróunarstarf í fátækustu ríkjum heimsins.
Aðrar á listanum yfir tíu valdamestu konurnar eru eftirtaldar.
Dilma Rouseff, forseti Brasilíu, 66 ára.
Christine Lagarde, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, 58 ára.
Hillary Clinton, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, 66 ára.
Mary Barra, forstjóri General Motors (GM), 52 ára.
Michelle Obama, forsetafrú Bandaríkjanna, 50 ára.
Sheryl Sandberg, aðstoðarforstjóri Facebook, 44 ára.
Virgina Rometty, forstjóri IBM, 56 ára.