Hlutfall atvinnulausra hér á landi var rúmum þremur prósentustigum hærra síðasta vetur heldur en á sama tíma fyrir ári síðan, samkvæmt vinnumarkaðskönnun Hagstofu. Þetta er rúmlega þrefalt meiri aukning atvinnuleysis en átt hefur sér stað í Noregi, Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi.
Þetta kemur fram þegar vinnumarkaðstölur landanna fimm eru bornar saman. Samkvæmt þeim var atvinnuleysishlutfallið hér á landi 3,8 prósent á síðasta ársfjórðungi 2019, og var það svipað og í Noregi og í Danmörku.
Á sama tíma var atvinnuleysið í Svíþjóð og Finnlandi þó töluvert hærra, eða í rúmum sex prósentum. Líkt og sjá má á mynd hér að neðan hefur atvinnuleysið í Svíþjóð, Finnlandi, Danmörku og Noregi aukist síðan þá, þó mun minna en Ísland. Að meðaltali var atvinnuleysið á síðasta ársfjórðungi í fyrra og fyrsta ársfjórðungi þessa árs í löndunum rúmu prósentustigi meira en það var á sama tíma árið á undan.
Á Íslandi hefur atvinnuleysið hins vegar aukist um 3,6 prósent á sama tíma, en það var að meðaltali 7,7 prósent á fyrstu þremur mánuðum ársins samkvæmt vinnumarkaðskönnun Hagstofu. Þó er atvinnuleysið ekki orðið jafnhátt og í Svíþjóð, þar sem það mældist 9,7 prósent á ársfjórðungnum, eða í Finnlandi, þar sem það nam 8,3 prósentum.
Nokkur munur hefur verið á mælingum Hagstofu og Vinnumálastofnunar á atvinnuleysi frá því að yfirstandandi efnahagssamdráttur hófst í fyrra. Samkvæmt greiningu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands er meginskýringin á þessum mun sú að upplýsingar um atvinnulausa eru bjagaðar í vinnumarkaðskönnun Hagstofu þar sem atvinnulausir svari síðar spurningum hennar. Þar af leiðandi mætti áætla að atvinnuleysi samkvæmt Hagstofunni sé vanmetið.
Hins vegar bætir Hagfræðistofnun við að Hagstofan beitir sömu aðferðum og aðrar hagstofur erlendis og líklegt sé að þær stríði einnig við svipaðan vanda.