Eftir að hafa verið í Frakklandi í smá tíma er óhjákvæmilegt að heyra minnst á Stromae. „Hvernig finnst þér Stromae? Eruð þið búin að heyra nýja plötuna? Sáuð þið hann í sjónvarpinu í gær. Er Stromae hommi? Er hann ekki frábær?“
Stromae er stöðugt fyrir augum manns - í eyrunum, alls staðar. Enginn prýðir forsíður blaðanna oftar en hann. Alltaf í útvarpinu, sjónvarpinu; tónlistin heyrist um allt: á kaffihúsum, á börum, í búðum, í partýum; ungir sem aldnir, konur, karlar og börn falla fyrir Stromae. Ég veit ekki hversu oft ég hef verið spurður út í þennan mann, sem virðist vera alls staðar yfir og allt um kring.
Hver er þessi Stromae?
Stromae, öðru nafni Paul Van Haver, er fæddur 12. mars 1985 í Brussel. Belgískur rappari, söngvari og lagahöfundur. Faðir hans er frá Rúanda, arkitekt sem var myrtur í þjóðarmorðunum í Rúanda 1994. Hann var fjarverandi mest alla barnæsku Stromae sem er því að mestu uppalin hjá flæmskri, fátækri og einstæðri móður, ásamt fjórum öðrum systkynum í fátæku úthverfi í Brussel. Móðir hans hvatti hann óspart áfram til þess að stunda íþróttir og læra tónlist. Hann lagði stund á slagverk og trommur og stofnaði sína eigin rapphljómsveit sem unglingur.
Vegna uppruna síns segist hann aldrei hafa upplifað sig sem raunverulegan Belga, þótt hann sé þar fæddur og uppalinn. Í laginu Bâtard eða „Bastarðurinn“ segir hann:
„Ég er hvorugt þessi eða hinn,
heill eða hálfur;
ég er aðeins ég sjálfur.“
Honum gekk aldrei vel í skóla, féll í gaggó, fann sig hvergi nema í tónlist, en fékk þó tækifæri til þess að stunda listnám og þar fann hann loks sinn stað í lífinu. Gerði þar sína fyrstu smáskífu: Juste Un Cerveau, Un Flow, Un Fond et Un Mic.
Steimarinn
Stromae er stafabrengl á orðinu Maestro (meistarinn/steimarinn) sem er auðvitað mjög hiphoppísk nafngift enda liggja ræturnar þar, þótt áhrifin séu margvísleg. Tónlistin hans er undir ýmsum áhrifum, elektrónísk hip hop tónlist, bragðbætt með afrískri þjóðlagatónlist og franskri kabarettstemningu. Hann segist sækja áhrifin víða; bandarísk hip hop tónlist sé þar afar mikilvæg, sömuleiðis Jacque Brel, danstónlist frá Kúbu og rúmbuslagarar frá Kongó séu í miklu eftirlæti, en auk þess evrópsk danstónlist frá tíunda áratugnum, Eurodance eða Eurotrash, eins og sumir kalla hana, sem sjaldan hefur verið í hávegum höfð hjá tónlistarspekúlöntum - en Stromae engu að síður dýrkar:
„Þó eurodance-tónlist tíunda áratugarins sé jafnan fyrirlitin er þar margt sniðugt að finna: house, salsa og ýmislegt fleira. Svo er hún bara svo fyndin og skemmtileg - tilgerðarlaus“
Árið 2009 vann hann sem starfsnemi á útvarpsstöðinni NRJ í Brussel. Sú stöð tók hann upp á sína arma og setti í spilun hans fyrsta lag sem sló í gegn, Alors on danse, sem flaug upp alla vinsældarlista í Evrópu 2009. Lagið fór á toppinn í Belgíu, Frakklandi, Svíþjóð, Grikklandi, Þýsklalandi, Austurríki, Tyrklandi, Sviss, Ítalíu, Danmörku, Rúmeníu og Tékklandi. Allir fóru að tala um Stromae, meira að segja Frakklandsforseti, Nicolas Sarkozy, sem lofaði lagið og tónlistarmanninn. Sjálfur Kanye West liðsinnti honum í sérstakri hljóðblöndun á laginu og sagðist fíla Stromae. Í hip hop-heiminum er það auðvitað eins og að fá blessun frá sjálfum páfanum. Í kjölfarið var gerður stór útgáfusamningur við Vertigo Records.
2013 kom út breiðskífan Racine Carrée sem vakti mikla athygli; almenningur jafnt sem gagnrýnendur lofuðu hana óspart; margverðlaunuð og víða valin plata ársins.
Tónlistarmaðurinn Stromae á tónleikum. Mynd: EPA
Mín káta angist
Þótt tónlist Stromae sé dansvæn og dillandi eru textarnir oftar en ekki grafalvarlegir. Hann segist hafa mjög ákveðna hugmynd um textasmíð; textarnir eiga að fjalla um eitthvað raunverulegt; hið sorglega en líka hið gleðilega; um lífið sjálft. Hann sker sig því frá mörgum öðrum röppurum sem vilja helst ekki kveða um neitt annað en kynlíf og peninga. Stromae hefur til að mynda raulað um föðurmissi og það að alast upp án föðurs. „Þungamiðjan í textunum mínum er tregi; hin káta angist,“ segir Stromae. Hann flaggar oft afrískum uppruna sínum, bæði í tónlistinni og líka í fatastíl sem er afar litríkur.
„Ég kem nefnilega frá tveimur heimum og þess vegna er gott að vera í Belgíu sem er klofið land; tveir heimar. Það er land málamiðlana. Engin krafa um einsleitni.“
Myndböndin hans, sem hann á stóran þátt í að skapa, eru einföld, litrík og sniðug. Við lagið Formidable kom hann sér fyrir dauðadrukkinn úti á götuhorni með falda myndavél og fór að betla peninga og rétta fram hjálparhönd. Mikil umræða skapaðist um þetta myndband – sér í lagi um lögregluna í Brussel sem stóð bara álengdar og gerði ekki neitt, á meðan hann datt stöðugt í götuna. Stromae tók þó seinna upp hanskann fyrir lögregluna og sagði að hún hefði brugðist rétt við, þó hún hefði kannski ekki alveg strax áttað sig á þessum gjörningi - að sjá blindfulla, heimsfræga poppstjörnu ráfandi um fyrir utan lestastöð, eldsnemma um morgun.
Prinsinn af Belgíu
Belgar dýrka Stromae – og hann gæti hæglega tekið við konungstign í landinu. Hann samdi og söng hvatningarsöng belgíska landliðsins í knattspyrnu á HM síðasta sumar. Stromae er sömuleiðis farinn að hasla sér völl í Bandaríkjunum og fór í stóra tónleikaferð um landið á þessu ári, sem vakti mikla athygli. Treður upp í Madison Square Garden í New York og öðrum risaleikvöngum á næstunni. Hann tók þátt í að gera tónlist í síðustu Hungurleika-mynd, ásamt Kanye West, Grace Jones, Chemical Brothers og fleirum.
Stíll og framkoma hans þykir snjöll og seiðandi. Hann höfðar sterkt bæði til karla og kvenna; þykir ögn kvenlegur, hefur leikið sér kynímynd og ruglað fólk í ríminu með sitt kynlega atgervi. Nú hefur þessi mesta tískufyrirmynd og poppstjarna Evrópu búið til sitt eigið fatafyrirtæki, Mosaert (enn og aftur stafabrengl á maestro eða meistarinn) og framleiðir föt með miklum ágætum. Allt selst upp. Því allir vilja vera eins og Stromae.