Að meðaltali hefur ávöxtun íslenskra hlutabréfasjóða numið 74 prósentum á síðustu 12 mánuðum. Ávöxtun allra sjóðanna hefur verið nokkuð yfir 50 prósent, en tveir sjóðir hafa meira en tvöfaldast í virði.
Á vef Keldunnar má sjá 12 mánaða ávöxtun 13 íslenskra hlutabréfasjóða. Sjóðurinn Akta Stokkur var með mestu ávöxtunina, en hún nam 117 prósentum. Ávöxtunin var næsthæst hjá hlutabréfasjóðnum IS EQUUS frá Íslandsbréfum, en virði hans hefur hækkað um 110 prósent.
Á síðustu tólf mánuðum hefur úrvalsvísitala Kauphallarinnar hækkað um 57 prósent, en líkt og sjá má á mynd hér að neðan hefur hún hækkað hratt og nær samfellt frá upphafi faraldursins í mars í fyrra. Sambærilegur vöxtur hefur ekki sést á hlutabréfamörkuðum hérlendis eftir fjármálahrunið.
Hækkunina má að miklu leyti rekja til vaxtalækkana Seðlabankans í byrjun faraldursins. Með þeim jókst hvatinn til að fjárfesta í hlutabréfum, annars vegar vegna þess að lántökukostnaður hafði minnkað og hins vegar vegna þess að sparifjáreigendur þyrftu að ráðast í áhættusamari fjárfestingar til að viðhalda sömu ávöxtun á fjármagninu sínu.
Sama þróun hefur átt sér stað á öðrum Vesturlöndum, þar sem ríkisstjórnir og seðlabankar hafa gripið til margvíslegra aðgerða sem miða að því að auka magn lausafjár í umferð til þess að sporna gegn neikvæðum áhrifum faraldursins á fjármálakerfið. Á síðustu 12 mánuðum hefur S&P 500 hlutabréfavísitalan í Bandaríkjunum hækkað um þriðjung, en svipaða hækkun má einnig sjá hjá öðrum hlutabréfavísitölum um allan heim.
Allir íslensku hlutabréfasjóðirnir hafa skilað hærri ávöxtun en úrvalsvísitalan á síðustu tólf mánuðum. Sjóðurinn Stefnir ÍS-15 skilaði minnstu ávöxtunina, en hún nam 58 prósentum á ársgrundvelli.