Orku- og smásölufélagið Festi skilaði tæplega fimm milljarða króna hagnaði í fyrra, sem er tvöfalt hærri upphæð en árið 2020.
Dótturfélög Festi – sem eru meðal annars N1, Krónan og ELKO – skiluðu öll bestu rekstrarniðurstöðum sínum frá upphafi á árinu, meðal annars vegna mikilla verðhækkana. Þetta kemur fram í nýbirtu ársuppgjöri félagsins og fjárfestingakynningu vegna síðasta ársfjórðungsuppgjörs.
Tæpur hálfur milljarður úr eldsneyti og rafmagni
Tekjur allra þriggja dótturfélaganna jukust töluvert á árinu, en aukningin var þó mest hjá N1, þar sem hún nam tæpum átta milljörðum króna. í fjárfestakynningu sem fylgdi síðasta ársfjórðungsuppgjöri segir að verðhækkun eldsneytis hafi haft mikil áhrif, en auk þess hafi salan á eldsneyti aukist töluvert.
Einnig jókst framlegð af eldsneytis- og rafmagnssölu um 456 milljónir króna á síðasta ársfjórðungi, en samkvæmt Festi er það rúmlega helmingsaukning á milli ára.
Í þessum tölum er sala N1 Rafmagns á raforku til heimila í gegnum þrautavaraleið stjórnvalda, en félagið hefur verið gagnrýnt fyrir að rukka neytendur allt að 75 prósentum yfir auglýstu verði.
Líkt og Kjarninn hefur fjallað um áður hefur N1 beðið neytendur afsökunar á verðlaginu og sagðist félagið ætla að endurgreiða mismun á uppgefnum taxta og þrautavarataxta frá mars til nóvember í fyrra. Félagið hafði áður tilkynnt að það ætlaði aðeins að endurgreiða mismuninn í nóvember og desember 2021.
Verðið á bensíni og olíum hækkaði svo um 18 prósent í fyrra, en sú verðhækkun hefur aukið verðbólguna hérlendis um 0,6 prósentustig. Sömuleiðis tók verðið á rafmagni, sem hefur haldist nokkuð stöðugt á síðustu árum, kipp í síðasta mánuði, samkvæmt tölum frá Hagstofunni.
Krónan og ELKO í góðri stöðu
Samkvæmt ársreikningi Festi hefur rekstur Krónunnar og ELKO einnig bæst töluvert á síðustu mánuðum. Hagnaður Krónunnar nam 1,6 milljörðum króna og hefur hann tæplega tvöfaldast á milli ára. Hlutfallsleg aukning hagnaðar hjá ELKO var svipuð, en raftækjaverslunin skilaði 900 milljónum króna í hagnað í fyrra, miðað við 543 milljónir króna í hagnað árið 2020.
Bæði matvara og raftæki hækkuðu töluvert í verði í byrjun síðasta árs, en á síðustu mánuðum hefur vægi þeirra í verðbólgunni þó minnkað.
Samkvæmt Festi var framlegð Krónunnar á síðasta ársfjórðungi í takti við væntingar, en tekjurnar voru þá um 2 prósentum meiri en á sama tíma árið fyrr. Tekjuaukningin var nokkuð meiri hjá ELKO á sama tíma, en samkvæmt fjárfestatilkynningunni er hún meðal annars vegna þess að verslun í flugstöð Leifs Eiríkssonar hafi verið að ná sér á strik að undanförnu.
ELKO nýtur þess einnig að vera með sterka stöðu á markaði fyrir raftæki, en fyrirtækið hefur 49 prósenta markaðshlutdeild þar. Engin önnur raftækjasala kemst nálægt þeirri stöðu, en næststærsta fyrirtækið á markaðnum er heimilistæki með 9,6 prósenta hlutdeild af markaðnum.
Fjárfestingar, arðgreiðslur og endurkaup fram undan
Festi spáir því að rekstur dótturfélaga þess haldist áfram jákvæður og að rekstrarhagnaður (EBITDA) samstæðunnar muni nema rúmum níu milljörðum króna. Félagið segir þó nokkra óvissu vera um þá þróun, meðal annars vegna hnökra í aðfangakeðju á heimsmarkaði og óróa á heimsmarkaðsverði eldsneytis.
Í ár býst félagið svo við að greiða hluta hagnaðarins til hluthafa sinna í gegnum arðgreiðslur og endurkaup á eigin bréfum. Búist er við 1,58 milljarða króna arðgreiðslum í ár, auk þess sem félagið mun kaupa eigin bréf fyrir 837 milljónir króna á yfirstandandi ársfjórðungi.
Annar hluti hagnaðarins mun svo fara í aukinn rekstur félagsins, en það býst við að ráðast í fjárfestingar fyrir 5,5 milljarða króna í ár. Í fjárfestingakynningu félagsins segir að þetta ár verði „mikið fjárfestingarár“.