Olíurisinn Shell skilaði methagnaði annan ársfjórðunginn í röð. Í nýju uppgjöri félagsins fyrir annan ársfjórðung kemur fram að hagnaður félagsins á fjórðungnum hafi numið 16,7 milljörðum Bandaríkjadala sem samsvarar tæplega 2.300 milljörðum króna. Sterk afkoma félagsins á fjórðungnum er ekki síst tilkomin vegna hækkandi orkuverðs sem og þeim efnahagsbata sem orðið hefur á heimsvísu eftir að áhrif kórónuveirufaraldursins fóru dvínandi. Til samanburðar nam hagnaður félagsins á sama ársfjórðungi í fyrra 2,7 milljörðum dala, um 370 milljörðum króna á gengi dagsins í dag.
Að því er fram kemur í umfjöllun Wall Street Journal er sterk afkoma Shell á fjórðungnum en eitt merki þess að hagur stærstu olíufyrirtækja heims fari nú batnandi eftir mögur COVID-ár. Í faraldrinum hrundi eftirspurn eftir olíu vegna minni ferðalaga fólks og olíuverð lækkaði sömuleiðis.
Talsvert flökt á olíuverði innan ársins
Nú er öldin aftur á móti önnur. Olíufélögin hafa hagnast vel á auknum slagkrafti í heimsbúskapnum og tíðari ferðalögum. Frá upphafi árs hefur heimsmarkaðsverð olíu þar að auki hækkað umtalsvert. Við upphaf árs stóð verðið á tunnu af Brent Norðursjávarolíu í 80 dölum en nú er verðið rétt rúmlega 100 dalir. Þar með er ekki öll sagan sögð, verðið reis hratt í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu og fór hæst í tæplega 130 dali. Frá upphafi júní hefur heimsmarkaðsverðið lækkað nokkuð snarpt.
Innrás Rússa í Úkraínu fyrr á þessu ári hefur haft margþætt áhrif á orku- og olíufyrirtæki. Shell, líkt og aðrir stórir olíuframleiðendur á borð við BP og Exxon Mobil ákváðu að hætta framleiðslu á eldsneyti í Rússlandi eftir innrásina. Auk minni framleiðslu hafði það kostnað í för með sér en hækkandi orkuverð hefur dempað áhrifin allverulega.
Framlegðin þrefaldast
Engu að síður hafa þessi fyrirtæki sætt gagnrýni frá stjórnvöldum beggja vegna Atlantshafsins vegna þess að þau maka krókinn á sama tíma og almenningur þarf að greiða fyrir bæði orku til húshitunar og fyrir eldsneyti á bílinn mun hærra verði. Rússar hafa til að mynda dregið allverulega úr afhendingu á gasi til Evrópu sem hefur leitt til hærra orkuverðs en stjórnvöld hafa einnig áhyggjur af orkuskorti vegna þessa.
Framleiðsla Shell á jarðgasi dróst saman um fjögur prósent á fjórðungnum og er samdrátturinn að mestu tilkominn vegna þess að fyrirtækið hætti framleiðslu í Rússlandi. Á hinn bóginn jókst heildarframleiðsla Shell á olíu og gasi um fimm prósent frá fyrri ársfjórðungi. Þá þrefaldaðist framlegð í olíuvinnslu félagsins á fjórðungnum, að því er fram kemur á vef Wall Street Journal, og nemur nú um 28 dölum á hverja olíutunnu eða rúmum 3.800 krónum.