Joe Biden Bandaríkjaforseti setti í upphafi embættistíðar sinnar fram metnaðarfulla aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Það sama hefur hann gert í mennta- og heilbrigðismálum og fleiri málaflokkum og til stóð að frumvörp þar um færu brátt í þinglega meðferð.
En þetta kostar sitt. Þingmenn Demókrataflokksins spyrja nú hvort að ríki sem þegar er rekið með miklum halla í kjölfar heimsfaraldurs hafi efni á því að fjármagna áætlanir forsetans í umhverfis- og velferðarmálum en ekki síður hvort það hafi efni á að gera það ekki.
Áform Bidens í loftslags- og velferðarmálum eru sannarlega metnaðarfull. Hann hefur lagt til að á næstu tíu árum verði 3,5 billjónum dollara varið til verkefna til þess að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda, til að lækka kostnað við barnagæslu, auka aðgengi að háskólum og lækka verð lyfseðilsskyldra lyfja til efnaminna fólks auk fleiri atriða. Til að setja þessa upphæð í samhengi má benda á að búist er við að landsframleiðsla Bandaríkjanna í ár nemi um 23 billjónum dala.
New York Times fjallar nú um þessi málefni í röð fréttaskýringa. Þar kemur m.a. fram að til að fjármagna loftslags- og velferðarpakkann, verði skattar á auðugt fólk hækkaðir sem og fyrirtækjaskattar. Þá ætlar hann að bretta upp ermar og taka hart á skattaundanskotum.
Lykilmálið líklegast úti
Repúblikanar eru þessum áformum mótfallnir en efasemdir eru einnig meðal þingmanna demókrata og því er nú reynt að skræla utan af aðgerðapökkunum svo koma megi frumvörpum um þá í gegnum bæði fulltrúadeild Bandaríkjaþings og öldungadeildina.
Með þessum málamiðlunum er talið að eitt lykilatriði í loftslagsaðgerðum Bidens verði undan að láta. Þar er um að ræða áætlanir um orkuskiptin – að skipta hratt út kolum og gasi fyrir vind-, sólar- og kjarnorku.
Og ástæðan fyrir þessum efasemdum sem upp eru komnar má fyrst og fremst rekja til eins manns: Joe Manchin þriðja, öldungadeildarþingmanns demókrata í Vestur-Virginíu.
Flóðahætta er hvergi meiri í Bandaríkjunum en í Vestur-Virginíu samkvæmt skýrslu sem gefin var út í síðustu viku. Í heimabæ Manchins er t.d. þyrping um 200 húsa á eyri sem áin Buffalo Creek umlykur á þrjá vegu. Þar getur hratt myndast flóðahætta og síðustu misseri hafa flóðin orðið tíðari. Skýringin er sú að vegna loftslagsbreytinga hitnar andrúmsloftið meira og í því myndast meiri raki. Þess vegna rignir oftar og meira, ár og lækir flæða yfir bakka sína og jarðvegurinn verður gegnsósa. Tekur ekki lengur við. Innviðir eyðileggjast og holræsakerfi hafa engan veginn undan. Það flæðir inn í kjallara húsa og landbrot eykst.
Íbúar í hinni fjöllóttu Vestur-Virginíu eiga erfiðara með en íbúar annarra ríkja þar sem flóðahætta er vandamál að flytja sig um set. Flýja hættuna þegar hún verður orðin viðvarandi. Ár og lækir fylgja fjöllunum. Og það getur verið skammt þeirra á milli.
Manchin hefur engu að síður tilkynnt ríkisstjórninni að hann muni ekki styðja hröðu orkuskiptin sem Biden vill ráðast í.
En hvers vegna?
Vegna þess að Vestur-Virginía er það ríki Bandaríkjanna þar sem mest er framleitt af kolum og jarðgasi. Manchin segist óttast að fyrirætlanir Bidens í orkuskiptum muni hafa gríðarlega neikvæð efnahagsleg áhrif í ríkinu.
New York Times greinir frá því að Manchin eigi reyndar persónulega mikið undir í þessum efnum. Hann stofnaði fyrirtæki sem stundar viðskipti með kol. Í fyrra fékk hann hálfa milljón dala, um 65 milljónir króna, í arð frá fyrirtækinu.
Nokkrir þingmenn demókrata í báðum deildum þingsins, m.a. vegna andstöðu Manchins og þeirrar lykilstöðu sem hann er í þegar kemur að því að greiða frumvörpunum leið, eru því farnir að hallast að annarri leið. Í stað hraðra orkuskipta verði settur skattur á losun koltvísýrings. Samkvæmt tillögum þeirra myndu mengandi iðnfyrirtæki greiða kolefnisgjald. Slík leið hefur verið farin annars staðar og hagfræðingar hafa bent á að hún geti skilað árangri í að draga úr losun.
En Biden vildi taka stærri skref og hlaupa hraðar í átt að grænni framtíð í ljósi allra þeirra svörtu spáa vísindamanna um hvað framtíðin ber í skauti sér verði ekki ráðist í róttækar aðgerðir strax.
Hverju hafa Bandaríkin efni á?
Þingmennirnir sem eru farnir að draga í land og halla sér að kolefnisgjaldi, hafa bent á að útgjöld ríkisins séu miklu meiri en tekjurnar og hinar metnaðarfullu aðgerðir Bidens geti haft efnahagslegar afleiðingar fyrir komandi kynslóðir í formi verðbólgu, skattahækkana og lítils hagvaxtar.
En aðrir demókratar hafa bent á hið gagnstæða: Að ríkið – þjóðin – hafi ekki efni á að bíða með róttækar aðgerðir í loftslagsmálum, auðvelda konum að vera úti á vinnumarkaðnum og fjárfesta í menntun – ekki síst barna og ungmenna sem eiga efnaminni foreldra, í takti við áætlanir Bidens. Að þeirra mati þarf einmitt að fjárfesta í þessum „innviðum“ til að koma í veg fyrir sársaukafullan fórnarkostnað í framtíðinni sem myndi svo aftur hafa neikvæð áhrif á hagvöxt.