Jón Garðar Ögmundsson, kenndur við Metro-borgara, og Ásgerður Guðmundsdóttir hafa verið ákærð af embætti sérstaks saksóknara öðru sinni fyrir að meiri háttar skattsvik í gegnum fyrrum móðurfélag Metro-keðjunnar. Fólkið stóð ekki skil á greiðslu opinberra gjalda sem það hafði haldið aftur af launum starfsmanna sinna á árunum 2011 og 2012. Í ákærunni, sem gefin var út 17. júlí, segir að vangoldin staðgreiðsla opinberra gjalda sé „samtals að fjárhæð kr. 33.861.435 hvað varðar Ásgerði og 34.960.099 hvað varðar Jón Garðar“. Kjarninn hefur ákæruna undir höndum. Hana er hægt að lesa hér.
Dæmdur í febrúar fyrir sömu sakir
Þetta er í annað sinn á tæpu ári sem sérstakur saksóknari gefur út ákæru á hendur Jóni Garðari fyrir að skila ekki inn opinberum gjöldum sem hann hafði dregið af starfsmönnum sínum. Í fyrra haust var gefin út önnur ákæru á hendur honum fyrir sömu sakir vegna áranna 2009 og 2010. Alls nam upphæðin sem skilaði sér ekki þá 22,5 milljónum króna. Í því máli var Jón Garðar sakfelldur og dæmdur í fimm mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára. Honum var auk þess gert að greiða 45 milljónir króna í sekt. Dómurinn er ekki aðgengilegur á vef héraðsdóms Reykjavíkur. Kjarninn hefur hann hins vegar undir höndum. Hann má lesa hér.
Röð gjaldþrota
Jón Garðar rak áður McDonalds-staði á Íslandi í gegnum einkahlutafélagið Lyst ehf. Árið 2009 versnuðu viðskiptakjör það mikið í kjölfar bankahruns að hann ákvað að breyta stöðunum í Metro og komast þannig hjá því að fylgja ströngum stöðlum alþjóðlegu risakeðjunnar um innkaup. Þau brot sem Jóni Garðari var gefið að hafa framið með fyrri skattsvikaákærunni frá því í september í fyrra eiga að hafa verið framin á starfsmönnum Lystar.
Rekstur Metro var seldur frá Lyst yfir til félagsins Lífs og heilsu ehf. í júní 2010 og skömmu síðar fór Lyst í gjaldþrot. Samkvæmt tilkynningu í Lögbirtingarblaðinu námu lýstar kröfur í bú Lystar 379,2 milljónum króna. Nánast ekkert fékkst upp í þær.
Afsalað til Ásgerðar að nýju
Skráður eigandi Lífs og heilsu, sem tók við rekstri Metro-staðanna, var Ásgerður, sem samkvæmt fyrri fjölmiðlaumfjöllun er kærasta Jóns Garðars. Síðari ákæran, sem gefin var út í júlí 2014, er vegna meintra skattsvika þeirra tveggja í gegnum það félag. Líf og heilsa seldi rekstur Metró-staðanna til enn eins félags, M-veitinga ehf., haustið 2012. Skömmu síðar var Líf og heilsa svo lýst gjaldþrota. Jón Garðar sagði af þessu tilefni í samtali við Morgunblaðið að kaupverðið á rekstrinum ætti að duga fyrir um 100 milljón króna skuldum Líf og heilsu. Samkvæmt þeim gögnum sem finnast í fyrirtækjaskrá er eina féð sem greitt hefur verið inn í M-veitingar 500 þúsund króna stofnhlutafé.
Samkvæmt frétt í DV um málið var skráður eigandi M-veitinga Jón Heiðar Pálsson, nágranni Jóns Garðars og góður vinur. Í tilkynningu til fyrirtækjaskráar frá því í febrúar 2013 kemur fram að allt hlutafé í M-veitingum hafi verið afsalað til Ásgerðar. Hún er því í dag eigandi Metró-keðjunnar.