Michael Johnson, fyrrverandi Ólympíu- og heimsmeistari í 200 og 400 metra hlaupi, segir að það sé ekki sanngjarnt að persónugera vandamálin sem frjálsar íþróttir glíma nú við, sem snúa að lyfjamisferli, í bandaríska hlauparanum Justi Gatlin. „Vandamálið er ekki Gatlin, hann er bara hluti af því. Helmingurinn af hinum hlaupurunum sem hlupum í 100 metra hlaupinu hafa allir fallið á lyfjaprófinu. Það er vandamálið,“ sagði Michael Johnsson í viðtali við breska ríkisútvarpið BBC.
Mikil umræða um lyfjamisferli hefur átt sér stað að undanförnu, ekki síst í aðdraganda úrslitahlaupsins í 100 metra hlaupi á heimsmeistaramótinu í Peking, þar sem Usain Bolt frá Jamíku sigraði með naumindum á 9,79 sekúndum.
Sigurbjörn Árni Arngrímsson, hlaupari og prófessor í íþróttafræðum við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, sagði meðal annars þegar hann lýsti hlaupinu beint á RÚV að Bolt hefði „bjargað íþróttinni“ með sigrinum. Bolta er fyrir heimsmethafi í 100 og 200 metra hlaupi og margfaldur Ólympíu- og heimsmeistari.
Gatlin féll fyrst á lyfjaprófi 2001 og fékk þá tveggja ára keppnisbann, sem var svo stytt í eitt ár. Árið 2005 féll Gatlin aftur á lyfjaprófi þegar sterar mældust í alltof miklu mæli í honum. Hann hafði þá unnið 100 og 200 hlaup á HM í Helsinki í Finnlandi. Hann fékk þá fjögurra ára keppnisbann. Eftir að því lauk hóf hann keppni á nýjan leik, og er nú kominn í fremstu röð aftur.
Johnson segir mikilvægt að almenningur fái fram rétt skilaboð í umræðum um lyfjamisferli. Svindlið muni halda áfram þrátt fyrir að Gatlin hætti, nema að hugsunarhætti íþróttamanna verði breytt og þeir hætti að nota ólögleg lyf til þess að ná lengra.
https://www.youtube.com/watch?v=v2W_T77vwfQ