Miðflokkurinn er við það að detta af þingi samkvæmt nýrri könnun á fylgi flokka sem Maskína gerði fyrir fréttastofu Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis. Þar mælist fylgi Miðflokksins einungis fimm prósent, en hann fékk 10,9 prósent atkvæða í kosningunum 2017.
Til að fá jöfnunarmönnum úthlutað þarf að ná fimm prósent kjörfylgi á landsvísu og því má fylgi Miðflokksins ekkert dala til viðbótar til að það verði staðan.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærsti flokkur landsins í könnuninni með 23,8 prósent stuðning. Vinstri græn bæta við sig á milli kannana Maskínu og mælast nú með 15 prósent fylgi. Framsóknarflokkurinn er á svipuðum stað og hann hefur verið í undanförnum könnunum fyrirtækisins og mælist með 11,4 prósent fylgi. Hann er eini stjórnarflokkurinn sem mælist nú með meira fylgi en hann fékk í síðustu kosningum.
Væri mögulegt að mynda Reykjavíkurstjórn
Samfylkingin virðist ekkert vera að hressast eftir skarpa dýfu í könnunum á fyrri hluta ársins og mælist nú með 12,4 prósent fylgi, sem er nánast sama fylgi og flokkurinn mældist með í maí og sem hann fékk í kosningunum 2017.
Viðreisn mælist næstum jafn stór og Samfylkingin með 12,3 prósent fylgi og Píratar eru ekki langt undan með 11,6 prósent fylgi, en tveir síðarnefndu flokkarnir hafa útilokað stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn.
Samanlagt fylgi þessara þriggja flokka er nú 36,3 prósent sem þýðir að þeir gætu myndað ríkisstjórn með Vinstri grænum að óbreyttu eftir sama mynstri og ríkir í Reykjavíkurborg með 51,3 prósent atkvæða á bakvið sig.
Tveir flokkar næðu ekki manni inn
Flokkur fólksins, minnsti flokkurinn á þingi eins og er, mælist ekki með mann inni samkvæmt könnun Maskínu. Alls segjast 4,2 prósent kjósenda ætla að kjósa flokkinn.
Sósíalistaflokkurinn mælist á svipuðum slóðum, með 4,3 prósent fylgi, en hann býður nú fram til þings í fyrsta sinn.
Haldi fylgishrun Miðflokksins áfram með sama hætti og könnun Maskínu bendir til þá gæti sú staða komið upp að flokkunum sem eiga sæti á Alþingi fækkaði úr átta í sex.
Næsti þingkosningar fara fram 25. september næstkomandi.