Daníel E. Arnarsson varaþingmaður Vinstri grænna sagði undir liðnum störf þingsins í dag að allt of oft væri aðeins talað um femínisma þegar hópur kvenna neyddist til að koma fram með sögur af grófu kynbundnu ofbeldi eða áreiti til að vekja samfélagið upp og þar með fá þingmenn til að grípa boltann og bregðast við.
„Konur þurfa nefnilega bara að vera duglegri að vera þægar, eru jafnvel látnar svara fyrir ummæli sem við karlarnir höfum látið falla og okkur í feðraveldissamfélaginu finnst óþægilegt að hlusta á og heyra. Við viljum taka undir af umburðarlyndi en svo í kjölfarið gerist harla fátt.
Hversu margar metoo-bylgjur þurfum við til þess að átta okkur raunverulega á alvarleika málsins, átta okkur raunverulega á öllu ofbeldinu og hve djúpt það hefur komið sér fyrir í kimum samfélagsins? Þá er ég ekki einungis tala um beint líkamlegt eða kynbundið ofbeldi heldur einnig kerfislægt ofbeldi, að við áttum okkur á því að grunnþjónusta til kvenna er skert, því að konur þurfa bara að vera duglegri að vera ekki móðursjúkar, já eða ekki feitar. Já, þær þurfa að vera duglegri að vera bara nákvæmlega eins og samfélagið vill,“ sagði varaþingmaðurinn.
Er verið að gera nóg?
Daníel sagði þó að færa mætti rök fyrir því að margt hefði verið gert á síðustu misserum, að góð mál hefðu verið lögð fram á þingi, bæði af stjórn og stjórnarandstöðu, og ýmislegt fleira væri í vinnslu.
„En er það nóg? Enn þann dag í dag er konum kennt um kynferðisofbeldi vegna klæðaburðar, atferlis síns eða hegðunar. Við erum enn á þeim stað, þrátt fyrir allt sem hefur verið gert, að við búum við kynbundinn launamun, kynbundið ofbeldi, kerfislægt ofbeldi gegn konum og að konum sé nauðgað í hverri viku. Mikil er ábyrgð kvenna sem þurfa bara að vera duglegri að láta ekki nauðga sér. Þessu þarf að breyta.
Við þurfum femíníska byltingu. Við þurfum að grípa til róttækra umfangsmikilla aðgerða á öllum sviðum. Við þurfum fleiri femíníska flokka á Alþingi, breytum öllum þeim lögum, stofnunum, aðgerðaáætlunum, verkferlum og fræðsluáætlunum sem þarf að breyta til að við getum í alvöru talað um samfélag fyrir fólk af öllum kynjum. Áfram, stelpur,“ sagði hann að lokum og uppskar í framhaldinu fögnuð þingmanna í salnum.