Alls dróst heildarvirði hlutabréfa lífeyrissjóðanna um 75 milljarða króna í nóvember. Á sama jókst hlutdeild þeirra í innlendum og erlendum skuldabréfum um 36 milljarða króna, auk þess sem útlán þeirra til heimila jukust um 7,6 milljarða króna. Þetta kemur fram í nýjum tölum Seðlabankans um stöðu lífeyrissjóðanna.
Ásókn í óverðtryggð húsnæðislán
Líkt og Kjarninn hefur áður fjallað um buðu Lífeyrissjóður verzlunarmanna, Gildi og Brú upp á óverðtryggð húsnæðislán í nóvember á svipuðum kjörum og buðust hjá viðskiptabönkunum. Saman eiga þeir rúmlega helming af allri hreinni eign íslenska lífeyrissjóðakerfisins.
Líkt og mánuðina á undan minnkaði áhuginn á verðtryggðum húsnæðislánum lífeyrissjóðanna, þar sem ný lán voru 2,2 milljörðum krónum minni en uppgreiðslur á gömlum lánum. Á sama tíma jókst hins vegar áhuginn á óverðtryggðum útlánum, þar sem ný lán voru 3,7 milljörðum meiri en uppgreiðslur gamalla lána.
Nóvember var fyrsti mánuðurinn þar sem heildarvirði nýrra lána var meira en uppgreiðslur frá því í maí árið 2020, en þá stórjókst ásókn í húsnæðislán hjá bönkunum í kjölfar vaxtalækkana Seðlabankans.
Úr hlutabréfum í skuldabréf
Stærstu breytingarnar í eignum lífeyrissjóðanna á milli mánaða var hins vegar í hlutabréfa- og skuldabréfasafni þeirra. Virði innlendra hlutabréfa í eigu sjóðanna dróst saman 4 prósent, eða um 43 milljarða króna í nóvember. Þennan samdrátt má rekja til sveiflna í hlutabréfaverði, en úrvalsvísitala Kauphallarinnar dróst saman um 4 prósent á sama tíma.
Erlend hlutabréfaeign dróst hins vegar einungis saman um eitt prósent, eða um 31 milljarð króna, á sama tíma. Lækkunin er þó svipuð ef tekið er tillit til krónunnar, sem styrktist um tæp tvö prósent í mánuðinum.
Lífeyrissjóðirnir högnuðust þó á því að ávöxtun skuldabréfa jókst samhliða lægra verði á hlutabréfum, en skuldabréfavísitala Kauphallarinnar hækkaði um tæpt prósent í mánuðinum. Virði innlendrar skuldabréfaeignar sjóðanna hækkaði hins vegar um 1,5 prósent, eða um 34 milljarða króna. Einnig jókst erlend skuldabréfaeign sjóðanna um rúman milljarð.