Um þriðjungi allra matvæla sem framleidd eru í heiminum er hent. Um 10 prósent af losun manna á gróðurhúsalofttegundum tengist þessari miklu matarsóun. Á þessum staðreyndum byggir m.a. stefna Sameinuðu þjóðanna um að helminga matarsóun á heimsvísu fyrir árið 2030. Norsk stjórnvöld og matvælafyrirtæki ákváðu árið 2017 að stefna að þessu markmiði.
Ný skýrsla um matarsóun í Noregi árið 2020 sýnir að þótt að málið þokist í rétta átt virðist leiðin að því að uppfylla markmiðið vera torfær. Fyrsta skrefið, að draga úr matarsóun um 15 prósent á fimm ára tímabili (2015-2020) náðist ekki. Á þessum árum tókst þó að minnka matarsóun um 10 prósent að meðaltali þótt ákveðnir geirar hafi náð settu marki.
Að auki kemur fram í skýrslunni að greining á matarsóun og samdrætti sé ófullkomin. Þannig skilgreini ákveðnir geirar og fyrirtæki matarsóun með ólíkum hætti svo dæmi sé tekið.
Talið er að 453.650 tonn af mat hafi endað í norskum sorptunnum í fyrra. Það jafnast á við að hver Norðmaður hafi hent 84,7 kílóum af mat. Þetta er stór tala en hún er þó um 9,5 prósent lægri en árið 2015, segir í skýrslunni.
Í skýrslunni er farið nánar ofan í hver er að sóa mat. Heimili eru talin hafa hent 261 þúsund tonnum árið 2020, matvælaframleiðendur 86 þúsund tonnum og matvöruverslanir um 67 þúsund tonnum.
Inn í þessa greiningu vantar hins vegar matvælasóun sem verður í norskum landbúnaði. Ekki var byrjað að safna gögnum til að meta sóunina í þeim geira fyrr en á síðasta ári.
Hver Íslendingur hendir 90 kílóum af mat árlega
Nýlegar mælingar á matarsóun á Íslandi benda til þess að hver einstaklingur hendi í kringum 90 kíló af mat árlega. Í hefðbundinni fjögurra manna vísitölu fjölskyldu er því hent 360 kílóum á ári. Það eru nær 7 kíló af mat á viku. Þetta umfang svipar til hinna Evrópulandanna.
Í aðgerðaráætlun íslenskra stjórnvalda, sem gefin var út í júní 2020 til að stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda fram til 2030, er rætt um áhrif matarsóunar á losun. Þar er lögð áhersla á að draga eigi úr losun frá úrgangi um 59 prósent miðað við árið 2018. Þar sem matvæli eru stór hluti urðaðs úrgangs á Íslandi þá mun minni matarsóun draga úr urðun og tilheyrandi losun. Þess vegna er það hluti af aðgerðum stjórnvalda að draga úr matarsóun samhliða því að bann við að urða lífrænan úrgang og urðunarskattur verði settur á, segir í aðgerðaáætluninni. Þar kemur ennfremur fram að með aðgerðum sem fela í sér að draga markvisst úr matarsóun minnki losun koltvíoxíðs frá úrgangi um 14 þúsund tonn til árið 2030.