Ný útlán bankakerfisins umfram uppgreiðslur námu 14,3 milljörðum króna í desember og hefur sú tala ekki verið jafnlítil síðan í janúar 2020. Þó er samsetningin á útlánunum töluvert frábrugðin því sem hún var fyrir faraldurinn, þar sem heimili skuldsetja sig nú mun meira heldur en fyrirtæki. Þetta kemur fram í nýjum hagtölum Seðlabankans um bankakerfið.
Nýjum húsnæðis- og fyrirtækjalánum fækkar
Samkvæmt tölunum jukust ný nettó útlán til heimila um 23,6 milljarða króna í desember. Líkt og sést á mynd hér að neðan var þetta minnsta aukningin í nýjum útlánum heimila á árinu, en hún var mest í júní þegar skuldsetning þeirra jókst um 40,2 milljarða króna.
Hins vegar er ásókn heimila í bankalán þó enn mun meiri en hún var fyrir faraldurinn, en ný útlán þeirra umfram uppgreiðslur voru um helmingi minni á fyrstu mánuðum ársins 2020.
Hjá fyrirtækjum er þetta öfugt farið, en þar byrjaði umfang nýrra nettó útlána að dragast saman á seinni hluta árs 2019. Þessi samdráttur hélt svo áfram í kjölfar faraldursins, en um mitt árið 2020 voru uppgreiðslur gamalla lána meiri en aukin skuldsetning fjóra mánuði í röð.
Á fyrstu mánuðum ársins 2021 fóru svo ný fyrirtækjalán að aukast aftur, en sú þróun snerist svo við á haustmánuðum í fyrra. Frá ágúst til desember minnkaði skuldsetning fyrirtækja í bankakerfinu um 11,3 milljarða króna, en minnkunin nam 3,8 milljörðum króna í desember.
Lífeyrissjóðirnir snúa aftur
Líkt og Kjarninn hefur áður fjallað um hefur hlutdeild lífeyrissjóða á íbúðalánamarkaðnum aukist samhliða minni ásókn í ný lán hjá bönkunum, en útlán sjóðanna til heimila jukust um 7,6 milljarða króna í nóvember. Þetta gerðist á sama tíma og þrír sjóðir fóru að bjóða upp á óverðtryggð húsnæðislán á svipuðum kjörum og buðust hjá viðskiptabönkunum.
Nóvember var fyrsti mánuðurinn þar sem heildarvirði nýrra lána hjá lífeyrissjóðunum var meira en uppgreiðslur frá því í maí árið 2020, þegar ásóknin í húsnæðislán stórjókst hjá bönkunum.
Teikn um aukna íbúðauppbyggingu
Þrátt fyrir að heilt yfir hafi dregið úr útlánum banka til fyrirtækja má sjá merki um viðsnúning í lántöku í nokkrum geirum. Ný útlán til fyrirtækja vegna húsnæðis- og mannvirkjagerðar jukust um 3,1 milljarð króna í desember síðastliðnum, en þau voru einnig jákvæð um 2,4 milljarða króna í nóvember. Þetta er í fyrsta skiptið sem ný útlán til húsnæðisuppbyggingar hafa aukist tvo mánuði í röð frá upphafi faraldursins, en þau hafa verið afar lítil frá seinni hluta árs 2019.
Virði útlána íslensku bankanna til byggingarstarfsemi minnkaði um tugi milljarða króna í fyrra. Samkvæmt Íslandsbanka er minnkunin ekki tilkomin vegna þess að bankinn hafi verið að hafna verkefnum. Hins vegar hafi eftirspurnin eftir lánum í byggingargeiranum minnkað, auk þess sem uppgreiðsla byggingarverktaka sem hafa tekið slík lán orðið hraðari.