Bóluefnaframleiðandinn Moderna hefur opnað skrifstofur í Sviss og í Delaware í Bandaríkjunum. Báðir staðirnir eru á meðal „verstu skattaskjóla heims“ samkvæmt nýrri úttekt frá hollensku hugveitunni SOMO, sem vefsíðan Politico fjallaði um.
Í úttektinni segir að þrátt fyrir að höfuðstöðvar fyrirtækisins séu í Massachusetts í Bandaríkjunum sé móðurfyrirtæki þess skráð í Delaware, þar sem fyrirtækjaskattur er lágur og enginn skattur er á hugverkaleyfum. Alls er ein og hálf milljón fyrirtækja skráð í ríkinu, þótt aðeins 973 þúsund manns búi þar.
Samkvæmt frétt Politico um málið hefur Moderna fengið einn milljarð Bandaríkjadala í styrki frá Bandaríkjastjórn fyrir þróun bóluefnisins í gegnum aðgerðina Operation Warp Speed í fyrra. Til viðbótar við það greiddi Bandaríkjastjórn um sjö og hálfan milljarð Bandaríkjadala fyrir bóluefnisskammta á vegum fyrirtækisins.
Evrópusambandið hefur einnig pantað bóluefnisskammta að andvirði tíu milljarða Bandaríkjadala, en náði afslátt af þeim með því að greiða fyrirtækinu strax 360 milljónir Bandaríkjadala í fyrrasumar.
Samkvæmt samningi Evrópusambandsins og Moderna sem SOMO birti í umfjölluninni sinni, fór þessi fjárhæð til útibús Moderna í Basel í Sviss, en hugveitan segir borgina vera eitt af helstu skattaskjólum heimsins. Svissneska útibú Moderna var búið til í fyrra og hefur ekki, samkvæmt umfjöllun SOMO, unnið við þróun eða framleiðslu bóluefnisins.