Skipulags- og umhverfisnefnd Sveitarfélagsins Ölfuss telur nokkra ágalla vera á umhverfismatsskýrslu sem lögð hefur verið fram vegna fyrirhugaðs fiskeldis á landi á vegum fyrirtækisins Geo Salmo, sem áformar að framleiða 24 þúsund tonn af laxi árlega í landeldisstöð vestan Þorlákshafnar þegar fram líða stundir.
Fjallað var um umhverfismatsskýrsluna á fundi nefndarinnar fyrr í vikunni og sagðist nefndin í umsögn sem lögð var fram telja „miður“ hve lítið rými ljósmengun fengi í skýrslunni, þrátt fyrir að sveitarfélagið hefði á fyrri stigum bent sérstaklega á að það teldi að umhverfismatið skyldi fjalla um ljósmengun.
„Ekki er tekið á hvernig komið verði í veg fyrir ljósmengun í þeim örfáu línum sem fjalla um hana í kaflanum um hljóðvist,“ segja nefndarmenn í Ölfusi og vísa til matsskýrslunnar þar sem fram kemur að lýsing innan framkvæmdasvæðisins komi helst frá gróðurhúsum, og muni sjást frá Suðurstrandarvegi og göngu- og reiðleið sem liggur um svæðið. Í matsskýrslunni segir þó að við ákveðin skilyrði megi búast við að lýsing sjáist frá Þorlákshöfn, en að áhrifin séu talin óveruleg.
„Nær væri að fjalla um hvernig komið verði í veg fyrir óþarfa ljósmengun, til dæmis með því að beina ljósi frá niðurá við og frá alfaraleið og Þorlákshöfn,“ segir í umfjöllun nefndarinnar.
„Ærin ástæða til að hafa áhyggjur af lyktmengun“
Skipulags- og umhverfisnefnd sveitarfélagsins segir einnig að ekki verði séð að fjallað sé um þá „sjálfsögðu kröfu sveitarfélagsins að úrgangur verði geymdur innandyra“ í skýrslunni, heldur sé vísað til þess að farið verði eftir lögum um hollustuhætti auk þess sem fjallað sé um ríkjandi vindáttir.
„Sveitarfélagið vill benda á að samkvæmt skýrslunni blæs vindur í tæplega 10% tilfella frá stöðinni, til Þorlákshafnar og því ærin ástæða til að hafa áhyggjur af lyktmengun,“ segir í umsögn nefndarinnar.
Umhverfismatsskýrsla vegna landeldis Geo Salmo var lögð fram í snemma í desembermánuði og er nú í umsagnarferli hjá Skipulagsstofnun. Frestur til þess að veita umsögn um skýrsluna eða koma með athugasemdir rennur út 24. janúar.
Geo Salmo áformar sem áður segir að reisa eldisstöð þar sem hægt verði að framleiða allt að 24 þúsund tonn af laxi á ári, en til stendur að framkvæmdinni verði skipt í tvo áfanga. Gert er ráð fyrir því að lífmassinn í eldisstöðinni geti orðið allt að 12.160 tonn að hámarki.
Landeldisáform gætu haft töluverð áhrif á grunnvatn
Mikil vinnsla grunnvatns fylgir starfsemi landeldisstöðva og fram kemur í umhverfismatsskýrslu að áhrif framtíðarvinnslu, ekki bara hjá Geo Salmo heldur öðrum aðilum sem hyggja á landeldi við Þorlákshöfn, geti jafnvel haft verulega neikvæð áhrif á grunnvatn á svæðinu.
„Mikilvægt er að móta mótvægisaðgerðir og vöktun til að draga úr áhrifum vatnstökunnar og leggur Geo Salmo áherslu á að hefja boranir sem fyrst á svæðinu til að afla frekari gagna til að fylla inn í óvissu sem er um áhrifin. Sjálfbær nýting vatnsauðlindarinnar er ekki einungis mikilvæg út frá umhverfissjónarmiðum heldur er hún grundvallarforsenda reksturs fiskeldisstöðvar Geo Salmo og því hagur fyrirtækisins að vakta áhrif vinnslunnar og grípa til mótvægisaðgerða ef sýnt þykir að verið sé að ganga nærri auðlindinni,“ segir í umhverfismatsskýrslunni.