Í Morgunblaðinu í dag er því haldið fram að Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- orku- og loftslagsráðherra, sé að íhuga að bjóða sig fram til formanns Sjálfstæðisflokksins gegn Bjarna Benediktssyni, sem verið hefur formaður frá árinu 2009 og hyggst sækjast eftir endurkjöri. Í fréttinni, sem skrifuð er af Andrési Magnússyni ritstjórnarfulltrúa Morgunblaðsins, segir þó að ekkert hafi fengist staðfest um framboð Guðlaugs Þórs en að „undanfarna daga hafa verið miklir orðasveimir um hugsanlegt framboð Guðlaugs, sem m.a. hefur verið tengt umdeildu vali á landsfundarfulltrúum í stöku félagi.“ Blaðið hafði ekki náð tali af Guðlaugi Þór undanfarna daga og hann því sjálfur ekki svarað neinu um meint framboð.
Guðlaugur Þór hefur setið á þingi frá árinu 2003, var heilbrigðisráðherra 2007 til 2009 og utanríkisráðherra á síðasta kjörtímabili. Hann sat einnig í borgarstjórn Reykjavíkur 1998 til 2006.
Innanflokksátök í aðdraganda kosninga
Guðlaugur Þór hefur lengi verið með sterka stöðu innan Sjálfstæðisflokksins þótt hann sé ekki hluti af forystu hans. Sú staða er hefur sérstaklega verið sterk í Reykjavík og armur flokksins verið kenndur við hann. Sú staða hefur meðal annars gert það að verkum að hann hefur haft tilkall til ráðherraembættis þótt hann sé ekki talinn hluti af þeim armi flokksins sem fylgir Bjarna Benediktssyni. Raunar er hann eini ráðherrann sem það gerir ekki. Varaformaðurinn Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Jón Gunnarsson styðja öll Bjarna, og njóta stuðnings hans.
Fyrir þingkosningarnar 2021 fór fram prófkjör í Reykjavík þar sem Guðlaugur Þór tókst á við Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur um að vera oddviti Sjálfstæðisflokksins í höfuðborginni. Hart var tekist á og miklum fjárhæðum eytt í baráttuna í samanburði við það sem aðrir stjórnmálamenn eyddu. Guðlaugur Þór kostaði alls til ellefu milljónum króna og Áslaug Arna 8,7 milljónum króna.
Leikurinn var endurtekinn í ár fyrir borgarstjórnarkosningarnar. Þótt Hildur Björnsdóttir, oddviti lista Sjálfstæðisflokksins í borginni sé úr þeim armi sem kennir sig við Áslaugu Örnu þá voru margir aðrir sem röðuðu sér ofarlega á lista úr armi Guðlaugs Þórs. Það kallaði á miklar málamiðlanir í málefnaáherslum framboðsins.
„Þeir töpuðu“
Guðlaugur Þór hafði á endanum sigur og hélt í kjölfarið eftirminnilega ræðu þegar hann ávarpaði stuðningsmenn sína. Ræðan, sem átti ekki að vera opinber, var tekin upp og birt á Vísi.
Þar sagði Guðlaugur Þór meðal annars að markvisst hefði verið unnið gegn sér í prófkjörinu. „Þið skulið alveg átta ykkur á því að við höfum kannski haldið að þetta væri tiltölulega einfalt að því leytinu til að sá sem hér stendur hefur mælst vinsælasti ráðherra Sjálfstæðisflokksins, eini Sjálfstæðismaðurinn sem hefur unnið erfiðasta kjördæmi okkar, Reykjavík norður, ekki einu sinni, heldur þrisvar.
Samt sem áður var lögð einhver gríðarlega mikil áhersla á það að sjá til þess að sá sem hér stendur, og það er ekki bara ég, heldur þið, myndi ekki fá að vera áfram oddviti. Þið sáuð til þess að allir þeir sem unnu gegn því, að þeir töpuðu,“ sagði Guðlaugur Þór.
Á meðan að hann flutti ræðuna heyrðust stuðningsmenn kalla „losaðu þig við Bjarna“ og kalla til Guðlaugs Þórs: „formaðurinn“.
Gæti tekið fram úr Davíð
Bjarni tilkynnti sjálfur um framboð sitt til formanns á komandi landsfundi í byrjun ágúst. Landsfundurinn, sem fer fram fyrstu helgina í nóvember, verður sá fyrsti sem Sjálfstæðisflokkurinn heldur síðan í mars 2018. Í samtali við RÚV í sumar sagði Bjarni að kjörtímabilið væri rétt að hefjast og honum fyndist „ekkert annað eðlilegt en að ég haldi mínu striki og þess vegna í nóvember mun ég gefa kost á mér til að starfa áfram í þessari ríkisstjórn og leiða Sjálfstæðisflokkinn.“
Bjarni tók við formennsku í Sjálfstæðisflokknum í mars 2009, þá 39 ára gamall. Bjarni sigraði þá hinn eldri og reyndari Kristján Þór Júlíusson í formannsslag á landsfundi. Bjarni fékk 58 prósent atkvæða en Kristján Þór 40,4 prósent. Hann hefur því verið formaður í rúm þrettán ár. Landsfundir Sjálfstæðisflokksins, sem kjósa forystu hans, eru vanalega haldnir á tveggja ára fresti. Fundum sem fyrirhugaðir voru 2020 og 2021 var hins vegar frestað vegna kórónuveirufaraldursins.
Verði Bjarni endurkjörin formaður, og sitji hann fram að næsta landsfundi þar á eftir sem fram fer 2024, mun hann hafa verið formaður Sjálfstæðisflokksins í 15 ár. Það þýðir að hann tekur þá fram úr Davíð Oddssyni, sem var formaður í 14 og hálft ár og yrði í öðru sæti yfir þá formenn sem setið hafa lengst. Metið á Ólafur Thors, sem var formaður í 27 ár.
Sá ráðherra sem þjóðin vantreystir mest
Í formannstíð sinni hefur Bjarni leitt Sjálfstæðisflokkinn í gegnum fimm kosningar. Honum hefur mest tekist að fá 29 prósent fylgi í kosningunum árið 2016, en minnst 23,7 prósent í fyrstu kosningunum 2009. Í kosningunum í fyrrahaust fékk Sjálfstæðisflokkurinn 24,4 prósent atkvæða sem er næst versta niðurstaða hans frá upphafi.
Í könnun sem Gallup gerði á trausti þjóðarinnar til ráðherra ríkisstjórnarinnar í apríl síðastliðnum var Bjarni sá ráðherra sem flestir báru lítið traust til, eða 70,7 prósent aðspurðra. Rúm 18 prósent aðspurðra sögðust bera mikið traust til Bjarna, ögn fleiri en sögðust treysta Jóni Gunnarssyni dómsmálaráðherra, sem er sá ráðherra sem fæstir báru traust til.
Könnunin var gerð í kjölfar þess að mikil gagnrýni spratt upp á sölu á hlutum íslenska ríkisins í Íslandsbanka, en næstum níu af hverjum tíu landsmönnum töldu að illa hafi verið staðið að sölunni og að óeðlilegir viðskiptahættir hafi verið viðhafðir. Ráðuneyti Bjarna fer með eignarhald á hlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum og hann tók ákvarðanir um söluferlið.
Bjarni fól Ríkisendurskoðun að gera stjórnsýsluúttekt á söluferlinu og sú stofnun hefur nú lokið við gerð skýrslu um það. Umsagnarfrestur þeirra sem eru til umfjöllunar í skýrslunni, fjármála- og efnahagsráðuneytið og Bankasýsla ríkisins, rennur út í dag og verður henni í kjölfarið skilað til Alþingis. Vænta má að skýrslan verði birt opinberlega fyrir komandi landsfund Sjálfstæðisflokksins.
Fylgið komið aftur nálægt kjörfylgi
Framan af þessu kjörtímabili mældist fylgi Sjálfstæðisflokksins ekki mikið í sögulegu samhengi. Í apríl fór það í fyrsta sinn undir 20 prósent í könnun Gallup. Undanfarið hefur það þó lagast og í síðustu birtu könnun Gallup mældist það 24,1 prósent, eða rétt við kjörfylgi. Í könnun sem Maskína gerði núna í október mældist fylgið 22,8 prósent.
Í sveitarstjórnarkosningunum sem fóru fram í vor hélt Sjálfstæðisflokkurinn stöðu sinni sem stærsti flokkurinn á landsvísu og fékk 110 fulltrúa kjörna. Kjörnum fulltrúum Sjálfstæðisflokks í 22 stærstu sveitarfélögum landsins fækkaði hins vegar um sjö frá fyrra kjörtímabili, eru nú 76 en voru 83 á síðasta kjörtímabili.
Honum mistókst meðal annars að komast til valda á ný í Reykjavík, kjördæmi Guðlaugs Þórs, en flokkurinn hefur verið utan stjórnar í höfuðborginni frá 1994 ef frá eru talin nokkur ár á kjörtímabilinu 2006-2010. Niðurstaðan, 24,5 prósent, var minnsta hlutfallslega fylgi sem flokkurinn hefur fengið í borgarstjórnarkosningum.
Þá fékk flokkurinn undir 50 prósent atkvæða í höfuðvíginu Garðabæ, heimabæ Bjarna, þar sem hann fékk 62 prósent 2018. Það er í fyrsta sinn sem Sjálfstæðisflokkurinn fær ekki meirihluta atkvæða þar síðan á áttunda áratugnum þegar sveitarfélagið hét Garðahreppur og íbúafjöldinn var fjórðungur af því sem hann er nú.