MP Straumur, sameinaður banki MP banka og Straums, hefur haft samband við hluta viðskiptavina sinna, bæði einstaklinga og fyrirtæki, og sagt þeim að bankinn ætli að hætta með viðskiptabankaþjónustu fyrir þau. Viðskiptavinir sem Kjarninn hefur rætt við, sem starfsfólk MP banka hefur hringt í að undanförnu til að tilkynna þetta, segja að þau hafi ekki fengið neinar upplýsingar um af hverju verið væri að hætta viðskiptum við þau en ekki aðra.
Sigurður Atli Jónsson, forstjóri MP Straums, staðfestir í samtali við Kjarnann að bankinn sé að hætta með viðskiptabankaþjónustu fyrir hluta viðskiptavina sinna. "Starfsfólk MP banka hefur undanfarna daga hringt í viðskiptavini og kynnt fyrir þeim breytingar á starfsemi bankans samhliða sameiningu MP banka og Straums fjárfestingabanka. Nýjar höfuðstöðvar bankans í Borgartúni verða ekki með hefðbundið fyrirkomulag útibús eins og almenningur þekkir. Því verður ekki sama þjónusta í boði fyrir smærri fyrirtæki sem vilja vera í hefðbundnu viðskiptasambandi við banka varðandi sinn rekstur og verið hefur í höfuðstöðvum MP banka í Ármúla. MP banki hefur mótað sér þá stefnu að sinna fjármögnun til skemmri tíma í umbreytingarverkefnum, til dæmis við kaup og sölu á fyrirtækjum. Bankinn hyggst draga úr starfsemi tengdri fjármögnun á rekstri fyrirtækja. Breytingarnar hafa áhrif á smærri fyrirtæki sem hafa verið með rekstur sinn hjá MP banka. Haft hefur verið samband við innan við 100 fyrirtæki og hefur erindinu almennt verið vel tekið."
Lögðu viðskiptagjald á viðskiptavini
MP banki og Straumur sameinuðust nýverið. Tímabundið mun nýr banki bera nafnið MP Straumur, eða þar til nýtt nafn verður fundið. Samruninn gekk formlega í gegn 29. júní síðastliðinn.
Sameinaður banki verður rekinn á gömlu kennitölu MP banka, sem hefur viðskiptabankaleyfi og getur þar með safnað innlánum. MP banki hefur nokkrum sinnum áður sett skilyrði sem voru til þess fallinn að minnka þann hóp sem var í viðskiptabankaþjónustu hjá bankanum. Stefna bankans gefur veirð að avera ekki í þjónustu hins almenna bankaneytenda á Íslandi. Árið 2012 ákvað MP banki að leggja sérstakt viðskiptagjald á alla viðskiptavini MP banka sem voru með umfang viðskipta undir tveimur milljónum króna. Gjaldið var upphaflega 1.100 krónur á mánuði.
Í fyrrasumar, nánar tiltekið í júní 2014, var hið mánaðarlega viðskiptagjald hins vegar hækkað úr 1.100 krónum í 5.000 krónur. Það þýddi að árlegur kostnaður vegna þess fór úr 13.500 krónum í 60 þúsund krónur, og hækkaði því um 355 prósent.