Sextíu prósent hjúkrunarfræðinga á gjörgæsludeildinni á Landspítalanum í Fossvogi hafa sagt upp störfum. Ef uppsagnirnar ganga eftir verður deildin meðal þeirra deilda spítalans sem verða óstarfhæfar. Kristín Gunnarsdóttir, deildarstjóri gjörgæslunnar, segir að hún sjái ekki annað fyrir sér en að deildinni verði lokað. Þetta segir hún í Morgunblaðinu í morgun.
Kristín bendir á að tveggja ára sérnám þurfi til að starfa á gjörgæslunni, að ótöldum aðlögunartíma, og engin leið sé til að manna þær stöður á stuttum tíma. Eins og greint var frá í gær leita heilbrigðisyfirvöld nú leiða til þess að bregðast við yfirvofandi uppsögnum. Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir einn kostanna sem verði skoðaðir að ráða erlenda hjúkrunarfræðinga til starfa á spítalann.
Hjúkrunarfræðingar höfnuðu sem kunnugt er kjarasamningi sem gerður var í júní, en niðurstaðan varð ljós í gær. Hjúkrunarfræðingar vilja setjast aftur að samningaborðinu en stjórnvöld segja það ekki möguleika, nú muni gerðardómur ákveða framhaldið. Því hyggjast hjúkrunarfræðingar ekki una og ætla með málið fyrir dómstóla.