Í kjölfar þess að Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra tilkynnti Evrópusambandinu að ríkisstjórn hans vilji ekki lengur að Ísland hafi stöðu umsóknarríkis að sambandinu hafa margir rifjað upp ýmis ummæli áhrifamikilla stjórnmálamanna innan stjórnarflokkanna tveggja, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, um málið.
Einn þeirra er Lára Hanna Einarsdóttir sem hefur klippt saman myndband með ítrekuðum skilaboðum stjórnmálamanna úr stjórnarflokkunum í aðdraganda síðustu kosninga þar sem þeir lofa þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi viðræður við Evrópusambandið. Í myndbandinu, sem er rúmar fjórar og hálf mínúta á lengd, kemur meðal annars ítrekað fram að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, vilji að þjóðaratkvæðagreiðsla um málið fari fram á fyrri hluta kjörtímabilsins. Þeim hluta kjörtímabilsins fer senn að ljúka enda rétt tæp tvö ár liðin frá síðustu þingkosningum.
Mynband Láru Hönnu má sjá hér að neðan: