Hlutfall Íslendinga sem hlynntir eru aðild Íslands að Evrópusambandinu hefur ekki mælst hærra en í nýrri könnun Prósents sem sýnir að 48,5% svarenda eru hlynntir aðild en 34,9% andvígir. 16,7% kváðust enga skoðun hafa á málinu.
Um er að ræða niðurstöður könnunar Prósents sem framkvæmd var 2. til 13. júní og birtar voru í Fréttablaðinu í dag. Niðurstöðurnar eru svipaðar niðurstöðum Þjóðarpúls Gallup frá því í mars, en þá mældust 47% hlynnt aðild og 33% mótfallin. Um er að ræða viðsnúningi í viðhorfum frá síðastliðnum áratug þar sem hafa kannanir yfirleitt bent til þess að tæplega helmingur þjóðarinnar sé mótfallinn aðild og um þriðjungur hlynntur, en MMR gerði mánaðarlegar skoðanakannanir á viðhorfum til Evrópusambandsins frá 2011 til 2021. Samkvæmt þeim voru meira en 40 prósent viðmælenda verið hlynnt aðild.
Kjósendur Vinstri grænna ekki sammála stefnu flokksins
Samkvæmt umfjöllun Fréttablaðsins um niðurstöður könnunar Prósents vega flokkspólitískar skoðanir þungt í afstöðunni til Evrópusambandsaðildar. Jákvæðastir eru kjósendur Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata með á bilinu 79 til 83 prósent hlynnt aðild en innan við 10 prósent andvíg. Þá vekur athygli að fleiri kjósendur Vinstri grænna eru hlynntir Evrópusambandsaðild en andvígir, 40 prósent á móti 33, en flokkurinn er einnig sá sem hefur flesta óákveðna í afstöðunni, það er 24 prósent. Samkvæmt stefnu Vinstri grænna er „hagsmunum Íslands betur borgið utan Evrópusambandsins en innan.“
46% kjósenda Sósíalistaflokksins kváðust hlynnt aðild en 32% mótfallin. Meðal Framsóknarmanna eru 54% mótfallnir og 35% hlynntir og meðal kjósenda Flokks fólksins voru 50% mótfallin og 30% hlynnt. Mótfallnastir aðild Íslands að Evrópusambandinu eru kjósendur Miðflokksins, eða 68% og þar á eftir kjósendur Sjálfstæðisflokksins, 63%. 20% Sjálfstæðismanna eru hins vegar hlynntir aðild en aðeins 8% kjósenda Miðflokksins.