Mikil óvissa ríkir um næstu skref í Grikklandi eftir að gríska þjóðin hafnaði samkomulagi við kröfuhafa í þjóðaratkvæðagreiðslu á sunnudag með ríflega 60 prósent atkvæða. Seðlabanki Evrópu lokaði fyrir lánalínu til grískra banka í kjölfar þess að Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, boðaði til atkvæðagreiðslunnar. Fulltrúaráð seðlabankans mun í dag ákveða hvort opnað verði fyrir fjármögnun á ný. Líklegast þykir að beðið verði eftir viðbrögðum og ákvörðunum leiðtoga evruríkjanna, sem funda um stöðuna bæði í kvöld og á morgun. Ólíklegt þykir að Seðlabanki Evrópu dragi alfarið úr fjárhagsaðstoð til Grikklands en það er mat sérfræðinga að slíkt yrðu endalok Grikkja í evrusamstarfinu.
Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar er sigur fyrir Tsipras forsætisráðherra og ríkisstjórn hans. Lítill tími er þó til að fagna því alvarleg skuldastaða Grikklands stendur eftir sem áður óleyst. Um 1,6 milljarða evra greiðsla af láni frá Alþjóðagjaldeyrissjóðinum (AGS) féll á gjalddaga í byrjun mánaðarins og rúmlega tvöfalt hærra lán frá Seðlabanka Evrópu fellur á gjalddaga þann 20. júlí. Grikkir krefjast þess að samkomulag við kröfuhafa feli í sér minna aðhald í ríkisrekstri en kröfur hafa verið gerðar um til þessa. Það er mat fjölmiðla, meðal annars The Guardian, að næstu 48 klukkustundir muni reyna á þá fullyrðingu Tsipras að afstaða grísku þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslunni styrki samningsstöðu landsins.
Robert Peston, ritstjóri efnahagsmála hjá Breska ríkisútvarpinu BBC, hefur skrifað um stöðuna í dag og segir að hver sem niðurstaðan verði um áframhald Grikklands í evrusamstarfinu, þá verði hún dýrkeypt. Peston segir framtíð Grikklands í sömu höndum og áður, það er í höndum Angelu Merkel, kanslara Þýskalands. Þá segir Peston frá skoðun Georgios Stathakis, efnahagsráðherra Grikklands, að afar mikilvægt sé að Seðlabanki Evrópu styðji við gríska banka í að minnsta kosti viku til tíu daga til viðbótar, svo finna megi farsæla lausn á málinu með samningum.
Leiðtogar stærstu evruríkjanna hafa hver á fætur öðrum komið skilaboðum áleiðis til fjölmiðla í dag. Í sinni einföldustu mynd eru skilaboðin þau að enn sé tími til þess að semja um skuldastöðu Grikklands og áframhaldandi veru ríkisins í evrusamstarfinu. Margir urðu vonbetri í morgun þegar tilkynnt var um afsögn hins yfirlýsingaglaða Yanis Varoufakis, fjármálaráðherra Grikklands, sem í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar líkti evruleiðtogum við hryðjuverkamenn. Leiðtogar evruríkjanna líta svo á að boltinn sé nú hjá Grikkjum sem þurfi að leggja fram ný samningsdrög. Sérfræðingahópur The Economist telur 60 prósent líkur á að Grikkir hætti evrusamstarfinu.
Bankar í Grikklandi hafa verið lokaðir síðustu sex viðskiptadaga en til stendur að opna þá á morgun. Óvíst er hvort það gangi eftir en margir telja það ómögulegt án aðkomu Seðlabanka Evrópu og loforðs um líflínu til bankanna. Almenningur í Grikklandi hefur aðeins mátt taka út 60 evrur á dag frá því þarsíðustu helgi og hefur gætt skorts á tuttugu evru seðlum í landinu á síðustu dögum.