Alls tóku 207 fagfjárfestar þátt í lokuðu útboði á 22,5 prósent hlut í Íslandsbanka 22. mars síðastliðinn. Af þeim voru 23 lífeyrissjóðir, 13 verðbréfasjóðir og 14 teljast sem „aðrir fjárfestar“. Alls 140 teljast sem einkafjárfestar. Samantekt Kjarnans leiddi í ljós að hægt sé að greina heimilisfesti 135 þeirra með nokkuð afgerandi hætti.
Niðurstaðan er sú að 68 þeirra 135 sem samantekt Kjarnans tók til eiga lögheimili í Reykjavík, eða 50,3 prósent hópsins. Það þarf ekki að koma mikið á óvart í ljósi þess að höfuðborgin er miðstöð fjármála og stjórnsýslu á Íslandi. Íbúar Reykjavíkur eru alls 36 prósent af heildaríbúafjölda landsins.
Kópavogur, næst stærsta sveitarfélag landsins þar sem 10,4 prósent íbúa þess búa, er ábyrgt fyrir 14,8 prósent einkafjárfestanna sem tóku þátt.
Næstum tveir af hverjum þremur íbúum landsins, alls 64 prósent, búa á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt úttekt Kjarnans voru 86 prósent þeirra einkafjárfesta sem tóku þátt í útboðinu þaðan. Til viðbótar keyptu íbúar höfuðborgarsvæðisins að jafnaði fyrir mun hærri fjárhæðir en þeir sem búa annarsstaðar.
Það þýðir að landsbyggðin, þar sem 36 prósent landsmanna búa, myndaði 14 prósent af einkafjárfestahópnum sem keypti. Flestir þaðan voru frá Akureyri, eða sjö talsins, en Íslensk Verðbréf sem er með höfuðstöðvar á Akureyri, var á meðal söluaðila í útboðinu.
22,5 prósent hlutur í Íslandsbanka sem var seldur í lokuðu útboði með tilboðsfyrirkomulagi þann 22. mars 2022 fór fyrir 52,65 milljarða króna. Verðið var 4,1 prósent undir markaðsvirði á þeim tíma sem þýðir að þeir 207 aðilar sem fengu að kaupa gerðu það á verði sem var 2,25 milljörðum krónum undir markaðsvirði þess tíma. Kostnaður við útboðið var um 700 milljónir króna.