„Við þurfum ekki að breyta nafninu en mér finnst líklegt að við gerum það,“ segir Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir um hvort til standi að breyta nafni sjúkdómsins apabólu í samræmi við ákvörðun Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Stofnunin hefur ákveðið að enska heitinu, monkeypox, verði breytt í mpox.
Guðrún bendir á að WHO mun nota bæði nöfnin í eitt ár en eftir það eingöngu mpox. Mpox verði síðan verða formlega í uppfærslu á alþjóðlegu flokkunarkerfi WHO á árinu 2023.
Sextán einstaklingar hafa greinst með apabóluna á Íslandi. Allt eru það fullorðnir karlmenn og flestir þeirra hafa smitast erlendis.
En hverjir taka ákvarðanir um nöfn á sjúkdóma og þá breytingar sem þessar?
„Sóttvarnalæknir í samráði við sóttvarnaráð og embætti landlæknis mun taka ákvörðun þar sem þetta er tilkynningaskyldur smitsjúkdómur,“ svarar Guðrún, „en engin formleg nafnanefnd eða þannig er um slíkt hérlendis.“
Hún segir að yfirleitt séu heiti sjúkdóma tekin beint upp frá WHO, samanber COVID-19 og apabóla (e. monkeypox).
WHO tekur ákvörðun sína í kjölfar háværs ákalls um breytingu á heitinu. Margir telja nafn sjúkdómsins – apabóla – smána þá sem sýkjast og fylla þá skömm. „Þegar útbreiðsla apabólu hófst fyrr á þessu ári þá voru margvísleg rasísk ummæli látin falla á netinu og víðar,“ sagði í tilkynningu frá WHO um ákvörðunina. Á fundum sérfræðinga WHO, sem koma frá ólíkum löndum, vöktu margir máls á þessu og óskuðu eftir nafnabreytingu.“
Alþjóða heilbrigðismálastofnunin hefur það hlutverk að nefna sjúkdóma, raskanir og heilkenni. Stofnunin hefur auk þess vald til að breyta nöfnum. Hins vegar er ekki algengt að það sé gert. Þekktasta dæmið um slíka breytingu er heilkenni sem WHO kallar nú þrístæðu 21. Heilkennið var áður nefnt Down syndrome af stofnuninni, Down-heilkenni á íslensku.
Faraldurinn fyrirséður
Apabóla (monkeypox) hefur verið kölluð því nafni í fleiri ár en það er þó ekki fyrr en hún breiðist frá Afríku til Vesturlanda þar sem ákall um nafnabreytingu verður hávært. Í mörgum ríkjum Afríku hefur hún verið landlæg lengi en rannsóknir á henni þó verið takmarkaðar. Helsta skýringin er sú, líkt og oft á við þegar Afríka á í hlut, að fjármagn til þeirra skortir.
Í maí á þessu ári fór apabólan svo að breiðast út um Evrópu og í kjölfarið til fleiri Vesturlanda. Það kom mörgum sérfræðingnum á óvart en hefði þó ekki átt að gera það. Því þeir sérfræðingar sem mest hafa rannsakað sjúkdóminn í Afríku voru búnir að vera við að einmitt þetta gæti gerst. Þeir segja að það eina sem hefði átt að koma á óvart var hversu nákvæmir spádómar þeirra um faraldur víða um heim reyndust.
„Við höfum alltaf varað við því að við ákveðnar kjöraðstæður, líkt og þeirra sem urðu til þess að faraldurinn braust út í ár, að sjúkdómurinn gæti ógnað lýðheilsu um allan heim,“ segir Adesola Yinka-Ogunleye, faraldsfræðingur við smitsjúkdómastofnun Nígeríu. Auk Nígeríu er apabóla landlæg í Benín, Kamerún, Gana og Líberíu og að auki hefur hún greinst í mörgum öðrum Afríkuríkjum í faraldrinum nú.
Yfir 80 þúsund manns í meira en 100 löndum hafa greinst með apabólu á þessu ári. Þessi mikla útbreiðsla hefur minnt á mikilvægi þess að hlusta á varnaðarorð sérfræðinga í þeim löndum sem mesta þekkingu hafa á ákveðnum sjúkdómum. Faraldsfræðingarnir Yinka-Ogunleye og Anne Rimoin, sem hefur rannsakað apabólu í Austur-Kongó, hafa báðar rannsakað sjúkdóminn í fleiri á og hafa samanlagt áratuga reynslu af því verkefni.
Árið 2017 hófu undarleg útbrot að gera vart við sig hjá fólki í suðurhluta Nígeríu. Yinka-Ogunleye grunaði strax að um væri að ræða apabólu en sú staðreynd að hún hafði ekki greinst í landinu í fjóra áratugi dró þó úr vissu hennar. En grunur hennar var staðfestur nokkrum vikum síðar. 122 tilfelli greindust í Nígeríu þetta ár og sjö dauðsföll voru tengd sjúkdómnum. Karlar voru í meirihluta sýktra og flestir voru þeir fullorðnir svo hægt var að draga þá ályktun að dregið hefði verulega úr virkni barnabólusetningar gegn bólusótt.
Banvænna afbrigði
Í Austur-Kongó hefur annað afbrigði veirunnar sem veldur apabólu greinst en í Nígeríu. Það afbrigði er lífshættulegra. Heilbrigðiskerfi landsins er mjög veikbyggt, þetta er eitt fátækasta ríki heims þar sem mikil ólga og átök hafa geisað árum og áratugum saman. Þetta ástand hefur gert það erfiðara og flóknara að rannsaka útbreiðslu sjúkdóma. Talið er að þúsundir hafi smitast af apabólu á hverju ári frá því á níunda áratug síðustu aldar. Dauðsföll árlega skipta hundruðum. Í ár, svo dæmi sé tekið, eru tilfellin þegar yfir 4.500 og talið er að 155 manns hið minnsta hafi látist vegna apabólu.
Yinka-Ogunleye og Rimoin segja í viðtali við Nature að gríðarleg þörf sé á að rannsaka til fullnustu útbreiðslu apabólunnar í Afríku. „Það er margt sem við vitum ekki ennþá en þurfum að komast að,“ segir Rimoin. Rannsaka þurfi t.d. ónæmi fólks fyrir veirunni, hversu lengi það varir, sem og smitleiðir.
Til verksins þurfi fleiri vísindamenn og betri tæki og tól til sýnasöfnunar og greininga. Slíkar rannsóknir, á uppruna og útbreiðslu veirunnar í Afríku mun hjálpa allri heimsbyggðinni, minna þær á.