Íbúar í Sjálandshverfi í Garðabæ fá sumir ekki svefnfrið á nóttunni vegna hávaða í máfum – og mörg dæmi eru um að máfarnir hafi hreinlega ráðist á fólk í hverfinu, samkvæmt bréfi sem íbúi sendi til bæjarstjórnarinnar í Garðabæ í upphafi þessa mánaðar.
„[Þ]etta ástand er algjörlega óþolandi,“ skrifaði íbúinn, sem vildi fá að vita hvað bæjarstjórnin ætlaði sér að gera í þessum málum.
Málefni máfa við Sjálandshverfið voru svo til umræðu á fundi bæjarráðs Garðabæjar í dag og ljóst er, samkvæmt því sem fram kemur í fundargerð, að bæjaryfirvöld hafa verið að velta fyrir sér að grípa til aðgerða vegna ónæðis frá sílamáfum á þessum slóðum um nokkra hríð. Frá hinu sama var sagt í fréttum í lok vetrar.
Á fundi bæjarráðs var farið yfir það að í vor sendi Garðabær inn umsókn til Umhverfisstofnunar um að fá undanþágu frá friðlýsingarskilmálum Gálgahrauns og leyfi til að fækka sílamáf á svæðinu með því að stinga á egg máfanna, svo færri máfar kæmust á legg.
Náttúrufræðistofnun Íslands líst hins vegar lítið á þau áform, samkvæmt því sem segir í umsögn stofnunarinnar um þessa umsókn Garðabæjar.
Máfurinn fer víða
Í umsögn Náttúrufræðistofnunar kemur fram að stofnunina vanti upplýsingar um stofnstærð sílamáfa á helstu varpstöðvum á Suðvesturlandi og því sé erfitt að spá fyrir um hvaða áhrif staðbundnar aðgerðir myndu hafa, en um leið stofnunin hafi „ekki mikla trú á að þessar áætluðu aðgerðir um að stinga á egg í hreiðrum í hluta Gálgahrauns muni skila árangri við að fækka sílamáfi við Arnarnesvog.“
Þar er þess að auki getið að varpið í Gálgahrauni sé einungis eitt af varpsvæðum sílamáfs á höfuðborgarsvæðinu, en stærsta varpið er á Rosmhvalanesi og þaðan ferðast fuglar „vítt og breitt um sunnanverðan Faxaflóa“ að sögn Náttúrufræðistofnunar.
„Því er ólíklegt að máfinum muni fækka við þessar staðbundnu aðgerðir því sílamáfar geta farið víða og geldfugl sérstaklega heldur sig ekki endilega næst varpstöðvum. Mögulegt er að aðgerðin geti skilað árangri við að tilfærsla verði á varpinu ef það er markmið, en væntanlega þyrfti að fylgja því eftir einhver ár fram í tímann,“ segir í umsögn stofnunarinnar.
Sveitarfélög þurfi að fræða íbúa um samneyti við náttúru
Náttúrufræðistofnun segir einnig að samneyti við villta náttúru sé „hluti af veruleika sem horfast þarf í augu við“ og að samneytinu geti fylgt „árekstrar og ónæði.“
„Að mati Náttúrufræðistofnunar er nauðsynlegt að sveitarfélög miðli upplýsingum til almennings um þetta, að þéttbýli útilokar ekki nánd við villt dýr og að sýna þurfi lífsbaráttu þeirra skilning,“ segir í umsögninni, og því bætt við að til að draga úr ágangi sílamáfa megi huga betur að frágangi úrgangs og meðhöndlun matvæla utandyra, því það sé það sem laðar að sílamáfa sem og aðra fugla.
Á fundi bæjarráðs Garðabæjar í dag var Almari Guðmundssyni bæjarstjóra falið að bregðast við umsögn Náttúrufræðistofnunar, ásamt því að vinna að tillögum um aðgerðir til að draga megi úr ágangi máfa innan bæjarmarkanna. Bæjarráðið fól bæjarstjóra jafnframt að taka málið upp á vettvangi stjórnar Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
Vorboðinn hrjúfi
Sílamáfurinn er farfugl, sem er tiltölulega nýr landnemi á Íslandi, en fuglarnir hófu ekki að verpa hér á landi fyrr en á þriðja áratug síðustu aldar. Nú verpir hann víða um land og fer sílamáfum fjölgandi í náttúru Íslands.
Máfarnir koma venjulega hingað til lands snemma árs, og samkvæmt upplýsingum á Fuglavefnum var meðalkomutími fyrstu fugla 25. febrúar. Því hefur sílamáfurinn fengið viðurnefnið „vorboðinn hrjúfi“ til mótvægis við skógarþröstinn, sem er sá ljúfi.