Samkeppniseftirlitið lýsir yfir efasemdum um það að 30 þúsund króna dagsektarheimild, sem Fiskistofa mun fá ef frumvarp Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra um eftirlit stofnunarinnar verður óbreytt að lögum, muni hafa tilhlýðileg fælingar- og varnaðaráhrif.
Í umsögn sinni um þingmálið ítrekar Samkeppniseftirlitið fyrri tilmæli sín um að sektarfjárhæðir, „þar sem þær séu ekki í neinu samhengi við mismunandi efnahag og fjárhagslegan styrkleika“ þeirra aðila sem Fiskistofa hefur eftirlit með. Bent er á að velta stærstu útgerðarfélaga landsins hafi hlaupið á tugmilljörðum króna árið 2021.
Samkvæmt frumvarpi matvælaráðherra, sem dreift var á Alþingi í febrúar, verður hægt að sekta fyrirtæki sem ekki skila þeim upplýsingum til Fiskistofu sem þeim ber að veita um 30 þúsund krónur á dag. Samanlagðar sektir í hverju máli verða þó ekki hærri en 1,5 milljónir króna, sem jafngildir 50 dagsektardögum.
Fiskistofa gegni mikilvægu eftirlitshlutverki
Samkeppniseftirlitið minnir á það í umsögn sinni að Fiskistofa gegni mikilvægu hlutverki við framkvæmd reglna um hámarksaflahlutdeildir, og að liður í eftirliti með þessu er sé að rannsaka og taka afstöðu til þess hverjir teljist til tengdra aðila og fari með yfirráð í því sambandi. Starf Fiskistofu hafi því mikla þýðingu í eftirliti með stjórnunar- og eignatengslum í sjávarútvegi.
„Við eftirlit af þessu tagi er mikilvægt að eftirlitsaðilinn búi yfir fullnægjandi úrræðum til þess að knýja á um t.d. afhendingu gagna og upplýsinga. Ef úrræði af þessu tagi eru ekki afgerandi og skýr er hætt við því að eftirlitið skili ekki árangri og markmið hlutaðeiganda laga nái ekki fram að ganga,“ segir í umsögn Samkeppniseftirlitsins.
Nauðsynlegt að hægt sé að sekta í hlutfalli við stærð
Samkeppniseftirlitið bendir á það að í frumvarpi fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra frá því í fyrra, þar sem sams konar breytingar voru lagðar til og nú eru settir fram í frumvarpi matvælaráðherra, hafi sérstaklega verið vísað til sektarúrræðis Fjármálaeftirlitsins í lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
Það sektarúrræði er þó af öðrum toga en það sem lagt er til að Fiskistofa fái. Fjármálaeftirlitið hefur heimild til þess að leggja á dagsektir sem geta verið á bilinu 10 þúsund til 1 milljón króna á dag, auk þess sem sérstaklega er tekið fram að við ákvörðun fjárhæðarinnar sé heimilt að taka tillit til fjárhagslegs styrks þess aðila sem sektina á að fá.
„Að mati Samkeppniseftirlitsins er nauðsynlegt að líta til þessa ef tryggja á að dagsektarúrræði Fiskistofu tryggi tilhlýðilegar efndir á fyrirmælum stofnunarinnar,“ segir í umsögn stofnunarinnar.
Óalgengt að dagsektarheimildir séu svo lágar
Því er einnig bætt við að eftir því sem Samkeppniseftirlitið komist næst sé „óalgengt að eftirlitsstofnun hafi til umráða svo lága dagsektarfjárhæð“ sem þær 30 þúsund krónur sem lagðar eru til í frumvarpi ráðherra.
„Svo virðist sem algengt sé að heimild til álagningar dagsekta sé annars vegar bundin ákveðinni lágmarksfjárhæð og hins vegar hámarksfjárhæð og virðist vera algengt að slík hámarksfjárhæð sé 500 þús. kr. til 1 milljón kr. Þá eru jafnframt dæmi um að ekki sé kveðið á um tiltekið lágmark eða hámark heldur viðkomandi eftirlitsstofnun falið að ákvarða viðeigandi sektarfjárhæð í hvert og eitt sinn, sbr. t.d. 38. gr. samkeppnislaga,“ segir í umsögn stofnunarinnar.