Ólík sjónarmið eru uppi innan velferðarnefndar Alþingis, um þá stöðu sem upp er komin vegna úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur. Dómstóllinn komst í gær að þeirri niðurstöðu að ekki væri lagastoð fyrir því að skylda þá sem geta verið í sóttkví heima hjá sér til þess að fara í sóttvarnahús við komuna til landsins.
Nefndin sat á fundi í rúmar fjórar klukkustundir í dag og fékk til sín bæði Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra og Þórólf Guðnason sóttvarnalækni. Kjarninn ræddi við tvo nefndarmenn, Helgu Völu Helgadóttur þingmann Samfylkingar og Vilhjálm Árnason þingmann Sjálfstæðisflokks, að fundinum loknum.
Þau eru ekki sammála um hvernig takast skuli á við málið. Helga Vala vill að farið verði að ráðum sóttvarnalæknis og lögum verði breytt til þess að sú aðgerð sem heilbrigðisráðherra hefur verið gerð afturreka með, að skylda alla frá skilgreindum há-áhættusvæðum í sóttkví á hóteli, öðlist lagastoð.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur verið afdráttarlaus um að það telji hann farsælast, en lítið hefur heyrst úr ranni ríkisstjórnarinnar frá því að úrskurður héraðsdóms lá fyrir í gær. Í sameiginlegri yfirlýsingu ráðuneytis og sóttvarnalæknis í gærkvöldi var biðlað til fólks um að vera áfram á sóttvarnahótelinu, þrátt fyrir úrskurðinn.
Heilbrigðisráðherra sagði við mbl.is í dag að niðurstöðu Landsréttar í málinu yrði beðið og tjáði sig ekkert um hvort farið yrði fram með frumvarp. Málið hefði ekki verið rætt formlega í ríkisstjórn.
Helga Vala segir fyrir þrjár leiðir til þess að leggja fram slíkt frumvarp. Í fyrsta lagi geti heilbrigðisráðherra gert það og þá sé hægt að „afgreiða það hratt og vel“, í annan stað gæti velferðarnefnd lagt fram slíkt frumvarp ef samstaða væri um það innan nefndarinnar og í þriðja lagi gætu þingmenn tekið sig saman og lagt fram þingmannamál um breytingar á sóttvarnalögunum.
Helga Vala segist þó efast um að samstaða sé um hvernig taka skuli á málinu á meðal ríkisstjórnarflokkanna og vísar til viðtals á Vísi við sjálfstæðismanninn Brynjar Níelsson, sem staddur er á Spáni um þessar mundir. Þar kom fram að hann myndi aldrei taka þátt í því að breyta lögunum við þær aðstæður sem nú ríktu.
Ætti að vinna með lögin eins og þau eru, að mati Vilhjálms
Annan kostinn sem Helga Vala nefndi er svo gott sem hægt að slá út af borðinu, því Vilhjálmur segir að hann sjálfur sé ekki fylgjandi því að breyta lögunum.
„Mér finnst það eigi bara að reyna að vinna með lögin eins og þau eru,“ segir Vilhjálmur, sem er mótfallinn því að íbúar hér á landi séu skikkaðir í sóttvarnarhús við komuna til landsins, ef þeir geti sýnt fram á að hafa aðstæður til að halda sóttkví.
Hann telur að hægt væri að auka eftirlit lögreglu með þeim sem eru í sóttkví og segir til dæmis að hægt væri að tilkynna komufarþegum að farið yrði í handahófskenndar heimsóknir á þann stað sem það gefur upp sem dvalarstað sinn í sóttkví.
Auk þess segir hann að þrátt fyrir að lagaheimild væri skotið undir aðgerðir heilbrigðisráðherra í snatri ætti eftir að kljást við þær spurningar sem lúti að því hvort aðgerðin standist jafnræði, meðalhóf og þau réttindi sem fólki séu tryggð í stjórnarskrá. Þeim spurningum hafi ekki verið svarað í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur.