Útgáfufélag New York Times, New York Times Company, hefur komist að samkomulagi um kaup á íþróttavefmiðlinum The Athletic. Bandaríska stórblaðið mun greiða 550 milljón dali, jafnvirði yfir 70 milljarða íslenskra króna, fyrir vefmiðilinn, sem stofnaður var árið 2016.
The Athletic hefur aldrei skilað hagnaði, en hefur náð að safna 1,2 milljónum áskrifenda á heimsvísu. Íþróttamiðillinn hefur lagt áherslu á dýpri fréttaflutning og greiningar úr heimi íþrótta og hefur það vakið mikla athygli hvernig miðillinn hefur sópað til sín mörgum af öflugustu íþróttaskríbentum rótgrónari miðla í Bandaríkjunum og síðar Bretlandi.
Í frétt um þessi viðskipti á vef New York Times segir að kaupin á The Athletic færi New York Times nær markmiði blaðsins að vera komið með 10 milljónir áskrifenda á heimsvísu árið 2025. Auk þess muni kaupin færa áskrifendum New York Times dýpri umfjöllun um þau rúmlega 200 íþróttalið í Norður-Ameríku, Bretlandi og á meginlandi Evrópu sem blaðamenn The Atletic fylgist sérstaklega með.
Til stendur að rekstur The Athletic verði áfram í þeirri mynd sem hann er nú og að ritstjórn miðilsins verði sjálfstæð og óháð ritstjórn New York Times. Áskriftir að The Athletic verða fyrst um sinn seldar stakar, en síðar verður boðið upp á þær sem hluta af áskriftarpakka New York Times. New York Times mun áfram reka sína eigin íþróttadeild.
Trúðu því að fólk vildi borga fyrir betri íþróttafréttir
Sem áður segir fór The Athletic fyrst í loftið árið 2016, en stofnendur miðilsins eru þeir Alex Mather og Adam Hansmann, sem áður störfuðu saman hjá fyrirtækinu Strava. Miðillinn var stofnaður í Chicago og fyrst um sinn beindist umfjöllunin aðallega að íþróttaliðunum þar í borg, en síðan færði miðillinn út kvíarnar og fór frá borg í borg í Bandaríkjunum og Kanada og kippti til sín færum íþróttafréttamönnum sem höfðu sérþekkingu á þeim liðum og íþróttagreinum sem þar störfuðu.
Árið 2019 heyrðu íslenskir íþróttaáhugamenn ef til margir um þennan miðil í fyrsta skipti, en þá færði The Athletic sig yfir Atlantshafið til Bretlands og hóf að fjalla af krafti um ensku knattspyrnuna. Réði miðillinn meðal annars til sín helstu fótboltablaðamennina af bæði breska ríkisútvarpinu BBC og blaðinu Guardian.
Hugsunin hjá Mather og Hansmann var frá upphafi sú að forfallnir íþróttaáhugamenn væru ekki að fá þá tegund umfjöllunar um sín uppáhalds íþróttalið í þeim fjölmiðlum sem væru starfandi á markaði, enda ættu flestir þeirra erfitt uppdráttar og oft væri byrjað á því að skera niður í íþróttaumfjöllun.
Þeir höfðu þá trú að notendur yrðu tilbúnir að greiða fyrir góða fréttamennsku og framsetningu, gott snjallsímaforrit og auglýsingaleysi. Í ljós hefur komið að fjöldi íþróttaáhugamanna um heim allan er tilbúinn að greiða fyrir slíka áskrift, en áskrifendurnir voru orðnir 1,2 milljónir talsins í desember, samkvæmt fréttatilkynningu frá New York Times Company.
Reiknað með hagnaði eftir þrjú ár
Þessi töluverði fjöldi áskrifenda hefur þó ekki reynst nægur til að skila hagnaði og það er af þeim sökum sem stofnendurnir hafa nú um nokkurt skeið verið að reyna að selja félagið.
Alls eru um 600 manns starfandi hjá The Athletic – þar af um 400 á ritstjórn og nam tap félagsins um 55 milljónum dala, 7 milljörðum króna, árið 2020. Ekki stendur til að segja upp fólki þegar kaupin ganga í gegn, en búist er við að það verði fyrir 1. apríl.
Í tilkynningunni frá Times segir að búist sé við að kaupin hafi neikvæð áhrif á afkomu félagsins í um það bil þrjú ár, en að með auknum vexti og uppbyggingu auglýsingakerfis hjá The Athletic verði reksturinn byrjaður að skila móðurfélaginu hagnaði að þeim tíma loknum.
Stofnendurnir Mather og Hansmann munu áfram leiða The Athletic í lykilstjórnendahlutverkum, en David Perpich, sem er stjórnandi hjá New York Times Company, verður útgefandi miðilsins.
Í tilkynningu er Perpich sagður hafa mikla reynslu að baki í því að fjölga stafrænum áskrifendum og stækka ýmsar vörur hjá New York Times. Hann er meðal annars sagður maðurinn á bak við bæði matreiðslu- og leikjavef New York Times, sem hafa á síðustu árum orðið miklar tekjulindir fyrir fjölmiðlafyrirtækið.