Samhliða aukinni skuldsetningu heimila er ríkisbúskapurinn að glíma við skyndilegan, og stórhættulegan, neikvæðan vöruskiptajöfnuð. Hann er að mestum hluta til drifinn áfram af mikilli lækkun útflutningstekna en líka af aukinni einkaneyslu. Það sem af er árinu 2014 er vöruskiptajöfnuður Íslands neikvæður um tíu milljarða króna. Það þýðir að virði þess sem við framleiðum og flytjum út er tíu milljörðum króna minna en það sem við flytjum inn og kaupum. Á sama tímabili í fyrra var vöruskiptajöfnuður jákvæður um 25 milljarða króna. Viðsnúningurinn er því heilir 35 milljarðar króna.
Þessi halli er mjög alvarlegur fyrir þjóðarbúið og samkvæmt heimildum Kjarnans telja margir háttsettir aðilar innan Seðlabankans og stjórnkerfisins að neyðarástand ríki í þjóðarbúinu. Stjórnvöld tilkynntu nýverið skipan framkvæmdastjórnar um afnám hafta og hafa látið í það skína að vinna við rýmkun þeirra gæti hafist fljótlega. Það ójafnvægi sem er í vöruskiptum þjóðarinnar ógnar mjög þeim áformum.
[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_08_07/16[/embed]
Heimildir Kjarnans herma að mikil fundarhöld hafi átt sér stað, meðal annars með aðkomu erlendra sérfræðinga, vegna þessa ástands undanfarin misseri. Meðal þess sem ráðgjafarnir erlendu hafa verið að ræða við stjórnvöld er að ákveðin þjóðhagsleg skilyrði verði að vera til staðar til að hægt sé að rýmka höft. Eitt það mikilvægasta er að þjóðarbúið fái fleiri krónur fyrir framleiðslu sína en það borgar fyrir vörurnar og þjónustuna sem það flytur inn.
Þetta er stutt útgáfa umfjöllunarinnar. Sjá má hana í heild sinni í Kjarnanum.