„Vinna nefndarinnar var góð og ekki fyrr en á lokametrum að ég upplifði að niðurstaða meirihlutans var barin fram,“ segir Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar og varaformaður umhverfis- og samgöngunefndar um álit meirihluta nefndarinnar á þingsályktunartillögu þriðja áfanga rammaáætlunar. Meirihlutinn vill færa fimm virkjunarkosti tillögunnar úr verndarflokki í biðflokk og þrjá úr nýtingarflokki í biðflokk. Þá vill hann einnig að einn vindorkukostur, Búrfellslundur, verði færður úr biðflokki í nýtingarflokk.
Þorbjörg, Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata og Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, standa saman að breytingatillögu við breytingatillögu meirihluta nefndarinnar. Í henni er lagt til að fjórir virkjanakostir í Skagafirði verði ekki færðir úr nýtingarflokki og í biðflokk sem og að Kjalölduveita verði áfram í biðflokki eins og verkefnisstjórn þriðja áfanga rammaáætlunar lagði til. „Við viljum standa með rammaáætlun sem verkfæri,“ segir Andrés Ingi við Kjarnann. „Verja verndarflokkinn fyrir pólitískum hrossakaupum stjórnarflokkanna og færa Héraðsvötn og Kjalöldu aftur í verndarflokk. Þá gefst þingmönnum tækifæri til að sýna með atkvæði sínu hvort þau standi með náttúruvernd þegar á reynir.“
Breytingartillaga þremenninganna var lögð fram á þingi í dag en önnur umræða um rammaáætlun er á dagskrá þingsins í dag.
„Ég geri engar athugasemdir við að þingið geri breytingar á tillögum,“ segir Þorbjörg Sigríður. Lög um verndun og nýtingu landsvæða, rammaáætlun, séu skýr um að Alþingi taki ákvörðun og Alþingi beri ábyrgðina. Um sé að ræða ákvarðanir byggðar á pólitísku heildarmati á hagsmunum sem vegast á. Verkefnið sé „þetta heilbrigða jafnvægi milli nýtingar og verndar,“ segir hún.
„Það er þess vegna í mínum huga ekki eitt og sér gagnrýnisvert að þingið geri breytingar á fyrirliggjandi tillögum. En rökin verða að halda vatni og ljóst á hvað rökum þær byggja. Og svo er bara því miður ekki.“
Illa rökstuddar breytingar
Að mati Þorbjargar eru breytingatillögur meirihlutans um að að færa virkjanir í Skagafirði og Kjalölduveitu í efri hluta Þjórsár „alvarlegar og illa rökstuddar. Og þær þjóna sannarlega ekki hagsmunum almennings.“
Einnig bendir Þorbjörg á að ekki sé heldur fjallað um hversu mikil raforka færist milli flokka með breytingartillögunum, þ.e. hvaða áhrif það hefur á þá raforku sem verður í nýtingarflokki eftir breytingartillögur meirihlutans. „Af hálfu umhverfisráðherra hefur verið talað um mikla raforkuþörf í þágu orkuskipta, en ekkert mat er um hver áhrif þessara breytingatillaga verða,“ segir hún. „Að sama skapi er ekki fjallað um hagkvæmni virkjunarkosta sem færast milli flokka eða þjóðhagsleg áhrif þeirra. Hver verða áhrifin á markmið stjórnvalda um orkuskipti? Verða þau dýrari eða ódýrari við þessar breytingar meirihlutans?“