Níu Íslendingar hafa verið settir á „svartan lista“ rússneskra stjórnvalda, en þetta tilkynnti rússneska utanríkisráðuneytið í dag. Þetta er gert vegna þátttöku Íslands í refsiaðgerðum Evrópusambandsins gegn rússneskum borgurum.
Einnig hefur verið gripið gegn aðgerða gegn 16 Norðmönnum, þremur Færeyingum og þremur Grænlendingum, en Noregur, Færeyjar og Grænland hafa tekið þátt í refsiaðgerðum Evrópusambandsins þrátt fyrir að standa utan sambandsins, rétt eins og Ísland.
Ekki liggur um hvaða einstaklinga er þarna um að ræða, en í tilkynningu rússneska ráðuneytisins er talað um að aðgerðirnar beinist gegn þingmönnum, ráðherrum, fólki úr viðskiptalífinu, fræðimönnum, fjölmiðlafólki og opinberum persónum sem hafi „kynt undir and-rússneskri orðræðu“ og skipulagt og komið í verk stefnumálum sem beinast gegn Rússlandi.
Einstaklingarnir sem um ræðir mega, samkvæmt því sem segir í tilkynningu rússneska utanríkisráðuneytisins, ekki ferðast til Rússlands.
Ísland hefur tekið undir allar þvingunaraðgerðir Evrópusambandsins gegn Rússlandi sem gripið hefur verið til í kjölfar þess að rússneski herinn réðst inn í Úkraínu í lok febrúarmánaðar.
Á vef utanríkisráðuneytisins má finna yfirlit yfir þær aðgerðir sem Ísland tekur þátt í. Þar á meðal eru ferðabönn og frysting fjármuna tiltekinna einstaklinga. Þessar aðgerðir beinast meðal annars að Vladimír Pútín, forseta Rússlands, og Sergei Lavrov utanríkisráðherra, en einnig er þeim beint að meðlimum þjóðaröryggisráðs Rússlands sem studdu viðurkenningu sjálfstæðis svæðanna Donetsk og Luhansk í Úkraínu, einstaklingum sem tengjast ríkisreknum fjölmiðlum og einstaklingum úr fjármálageiranum.
Þá ná aðgerðirnar sem Ísland tekur þátt í til flestra þingmanna rússneska þingsins og beinast þær einnig að einstaklingum sem sagðir eru stunda áróðursstarfsemi fyrir rússneska ríkið, lobbíistum og rússneskum auðmönnum.
Rússar hafa svarað þessu með því að beita helstu leiðtoga Evrópusambandsins og ríkja Evrópusambandsins sambærilegum aðgerðum – og nú einhverjum níu Íslendingum, 16 Norðmönnum og þremur Færeyingum og Grænlendingum, sem áður segir.
Rússnesk stjórnvöld hafa skilgreint Ísland sem „óvinveitt ríki“ en hingað til hafa einu gagnaðgerðir Rússa sem beinast að Íslandi eða Íslendingum falist í því að loka lofthelgi sinni fyrir loftförum frá Íslandi, rétt eins og tugum annarra ríkja.