Super Bowl, eða úrslitaleikurinn um Ofurskálina svokölluðu, fer fram í kvöld þegar ruðningsliðin New England Patriots og Seattle Seahawks leiða saman hesta sína á leikvangi háskólans í Phoenix.
Um er að ræða stærsta íþróttaviðburð Bandaríkjanna ár hvert, en sýningin í hálfleik er jafnan stórfengleg. Í ár verður sýningin í höndum poppstjarnanna Katy Perry og Missi Elliott.
Aðeins á þakkargjörðardaginn innbyrða Bandaríkjamenn meira af mat en á sjálfan ofurskálar-sunnudaginn. Samkvæmt skemmtilegri samantekt bandarísku ABC sjónvarpsstöðvarinnar um neyslu Bandaríkjamanna á Super Bowl sunnudeginum, innbyrðir meðal bandaríkjamaðurinn um 2.000 kaloríur á meðan á úrslitaleiknum stendur. Í samantekt ABC kemur jafnframt fram að um 1,5 milljónir Bandaríkjamanna muni ekki mæta í vinnuna í fyrramálið sökum „veikinda“ og 4,4 milljónir verði seinar í vinnuna.
Samantekt ABC má sjá hér að neðan.
Fyrir utan leikinn sjálfan ríkir jafnan töluverð eftirvænting fyrir sjónvarpsauglýsingunum sem fylgja útsendingu Ofurskálarinnar. Mörg stærstu fyrirtæki Bandaríkjanna slást um að tryggja sér pláss í auglýsingahléum útsendingarinnar, en um 30 sekúndna auglýsingapláss hjá NBC, sem sendir út leikinn, kostar um 4,5 milljónir Bandaríkjadala, eða röskar 600 milljónir íslenskra króna.
Auglýsendur veigra sér ekki við að reiða fram fjárhæðina, enda horfðu um 112 milljónir á síðasta Super Bowl leik. Auglýsingarnar sem sýndar verða í kvöld eru komnar á netið og áhugasamir geta barið þær augum hér, í umfjöllun ABC um Ofurskálina.