Útflutningstekjur Norðmanna af olíu, jarðgasi, fiski og áli náðu nýjum hæðum í mars, þar sem heimsmarkaðsverð á þessum vörum hefur hækkað hratt frá innrás Rússlands í Úkraínu. Þetta kemur fram í nýrri frétt frá norska blaðinu Dagens Næringsliv.
Blaðið vísar í nýjar útflutningstölur frá norsku hagstofunni (SSB) sem birtust í gærmorgun, en þar segir að heildarvirði útflutnings frá landinu hafi aukist um tæpan helming á milli mánaða. Auk þess segir hagstofan að vöruviðskiptajöfnuður, sem er útflutningur að frádregnum innflutningi, hafi aldrei verið meiri.
Verðhækkanir drífa tekjuaukningu
Samkvæmt Dagens Næringsliv er þessi aukning tilkomin vegna gríðarlegra verðhækkana á hrávörum, sem Noregur flytur út. Þar má helst nefna olíu, sem hefur hækkað mikið í verði í kjölfar þess að Bandaríkin og Kanada hafa bannað innflutning á rússneskri olíu sem hluti af refsiaðgerðum vegna innrásarinnar í Úkraínu. Evrópusambandslönd íhuga einnig að gera slíkt hið sama innan skamms.
Sömuleiðis hafa aðildarríki Evrópusambandsins reynt að draga úr innflutningi á jarðgasi frá Rússlandi og leita þau nú að öðrum leiðum til að sinna orkuþörfinni sinni. Þrátt fyrir það er aukningin á útflutningstekjum Norðmanna á jarðgasi einungis vegna verðhækkana á vörunni, þar sem útflutt magn þeirra til aðildarríkja sambandsins er nú þegar í hámarki og hefur ekki getað aukist meira þrátt fyrir aukna eftirspurn.
Myndin hér að ofan sýnir verðmæti útfluttra var frá Noregi á síðustu tveimur árum. Í síðasta mánuði nam það 226,3 milljörðum norskra króna, eða um 3,300 milljörðum íslenskra króna. Útflutningurinn á jarðgasi stóð undir rétt tæpum helmingi af þessum tekjum í mars.
Líka fiskur og ál
Norski orkugeirinn er þó ekki einn um að hafa hagnast á miklum verðhækkunum síðustu mánaða, en einnig má sjá miklar hækkanir í virði útflutnings annarra vara. Þeirra á meðal er ál og álafurðir, en útflutningsvirði þeirra hefur aukist um 78 prósent á milli mánaða í landinu vegna verðhækkana.
Sömuleiðis var nýtt met slegið í síðast mánuði í útflutningsverðmæti fisks og fiskiafurða, þrátt fyrir að útflutt magn á fiski hafi dregist saman um 12 prósent miðað við sama tímabil í fyrra. Aukningin var fyrst og fremst tilkomin vegna mikilla verðhækkana á norskum laxi, en hann er nú orðinn um þriðjungi dýrari en hann var í fyrravor.