Starfsemi tryggingafyrirtækisins NOVIS, sem selur tryggingar hérlendis, var ekki í samræmi við lög á tímabilinu 30. júní til 17. ágúst í fyrra. Þetta kemur fram í ákvörðun sem eftirlitsaðili félagsins birti í síðustu viku, en Seðlabankinn hefur gefið út sérstakar upplýsingar til neytenda hérlendis vegna hans.
Samkvæmt úrskurðinum telur eftirlitsaðilinn, sem er Seðlabanki Slóvakíu, að NOVIS hafi ekki stundað starfsemi sína með varfærnissjónarmið að leiðarljósi, þar sem ekki voru gerðar ráðstafanir til að draga úr áhættuþáttum sem gætu haft skaðleg áhrif á fjárhag félagsins. Kostnaðurinn við að greiða út þær skuldbindingar sem félagið hafði gert var því vanmetinn, að mati eftirlitsaðilans.
Enn fremur segir Seðlabanki Slóvakíu að NOVIS hafi ekki haft nægilegt gjaldþol til að mæta þeim kröfum tryggingafélög á Evrópska efnahagssvæðinu þurfa að framfylgja.
Tryggingar frá NOVIS hafa verið seldar íslenskum neytendum í gegnum dreifingaraðila hérlendis, en stærstur þeirra er félagið Tryggingar og ráðgjöf ehf.. Í samtali við Kjarnann sagði Hákon Hákonarson, framkvæmdastjóri félagsins, að félagið hafi selt tryggingar frá NOVIS fyrir um tíu þúsund manns. Samkvæmt ársreikningaskrá keypti félagið þjónustu til endursölu fyrir um 404 milljónir króna árið 2020.
Ágreiningur vegna mismunandi reikniaðferða
Að mati Hákons ríkir ágreiningur um hvaða leiðir séu notaðar til að reikna út gjaldþol. Þar sem NOVIS sé tiltölulega ungt og vaxandi félag sé erfitt að meta framtíðarrekstrarkostnað hvers vátryggingasamnings og uppsagnarhlutfall gerðra tryggingasamninga. Einnig bætir hann við að það sé algengt að tryggingafélög séu til skoðunar vegna lítils gjaldþols, til dæmis hafi fjórðungur allra þýskra líftryggingarfélaga verið rekin á sérstökum undanþágum, þar sem þau náðu ekki að ávaxta iðgjöldin sín til að halda viðunandi gjaldþoli.
Þá segir Hákon líka að ákvörðun Seðlabanka Slóvakíu byggi á máli sem sé í rauninni liðið og að NOVIS hafi styrkt fjárhag sinn frá síðasta hausti til að komast til móts við þær kröfur sem eru settar á félagið. Einnig hafi tryggingafélagið og eftirlitsaðilar komið sér saman um forsendur og aðferðarfræði til að reikna gjaldþol, sem NOVIS styðst nú við.
Hákon bætir svo við að lánshæfismat NOVIS ekki vera mikið frábrugðna heldur en einkunn íslensku bankanna, samkvæmt matsfyrirtækinu Standard & Poors (S&P). Samkvæmt síðustu úttekt fyrirtækisins er NOVIS með einkunnina BB-, sem er næsthæsta einkunnin í ruslflokki. Íslensku bankarnir hafa hins vegar lánshæfiseinkunnina BBB, sem er næstlægsta einkunnin í fjárfestingarflokki. Þó segir S&P að gjaldþol félagsins sé fullnægjandi í skýrslu sinni frá því í október í fyrra.
Frjáls ráðstöfun eigna í tvo mánuði óheimil
Samkvæmt tilkynningu Seðlabankans hafa eftirlitsaðilar gert úrbótakröfur á hendur NOVIS í þremur liðum. Tveir þeirra eru ekki birtir opinberlega, en samkvæmt þriðja liðnum má félagið ekki ráðstafa eignum sínum með frjálsum hætti næstu tvo mánuðina.
Félagið má heldur ekki greiða út kröfur til aðila sem eru í sérstöku sambandi við NOVIS eða skuldsetja sig meira en venjulegur rekstur félagsins kallar á.
Ákvörðunin er tekin með þeim tilgangi að endurreisa fjárhag NOVIS, en tryggingafélaginu ber að fylgja henni samkvæmt lögum um vátryggingastarfsemi. Geri hún það ekki getur fjármálaeftirlit í viðkomandi ríki afturkallað starfsleyfi félagsins, kemur fram í tilkynningu Seðlabankans.
Hafa oft verið til rannsóknar
Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem eftirlitsaðilar hafa afskipti af starfsemi NOVIS. Um sumarið 2018 bannaði Seðlabanki Ungverjalands félaginu tímabundið að selja nýjar söfnunarlíftryggingar. Seðlabanki Slóvakíu lagði svo annað slíkt bann á félagið um haustið 2020, þar sem það hafði brotið reglur um fjárfestingu iðgjalda. Það bann var svo fellt úr gildi í febrúar í fyrra eftir áfrýjunarbeiðni NOVIS, en lagt aftur á félagið tveimur mánuðum seinna þar sem það væri enn ekki að fjárfesta iðgjöld sín með réttum hætti.
Fjármálaeftirlitið athugaði einnig viðskiptahætti Tryggingar og ráðgjafar ehf. árið 2018 í kjölfar ábendinga frá neytendum til að ganga úr skugga um að þeir væru í samræmi við lög. Þar gerði eftirlitið athugasemdir við markaðssetningu á sjúkdómatryginngu, þar sem félagið miðlaði misvísandi upplýsingum, auk þess sem upplýsingar um kostnað og þóknanir hefðu ekki verið kynntar með fullnægjandi hætti.
Ári seinna tilkynnti Fjármálaeftirlitið svo að Tryggingar og ráðgjöf hefðu ekki framkvæmd þarfagreiningu áður en tryggingasamningar eru gerðir með viðunandi hætti.