Með því að þvinga flóttafólk og hælisleitendur til að gangast undir heilbrigðisrannsóknir er gefið til kynna að til sé heilbrigðisstarfsfólk sem getur hugsað sér að valdbeita einstakling í þessum viðkvæma hópi, skrifar Anna Kristín B. Jóhannesdóttir, hjúkrunarfræðingur og aðjúnkt, í umsögn um drög að nýjum útlendingalögum sem kynnt voru í samráðsgátt stjórnvalda.
Anna Kristín er í hópi nokkurra þeirra 22 einstaklinga og samtaka sem gáfu umsögn við drögin er gera sérstaklega athugasemd við nýja grein í frumvarpinu sem „vegur að friðhelgi þessara einstaklinga að ráða yfir líkama sínum og hvaða heilbrigðisrannsóknir þeir gangast undir,“ líkt og Anna Kristín orðar það. Um er að ræða 19. grein frumvarpsins sem felur í sér að lögreglu sé heimilt að skylda útlending til að gangast undir heilbrigðisskoðun og læknisrannsókn „ef nauðsynlegt þykir til að tryggja framkvæmd þegar tekin hefur verið ákvörðun um að hann skuli yfirgefa landið“.
Í frumvarpsdrögunum segir að með heilbrigðisskoðun og læknisrannsókn sé átt við „mat á einstaklingi sem viðurkenndur heilbrigðisstarfsmaður framkvæmir eða annar aðili sem er til þess bær að ákvarða heilbrigðisástand viðkomandi m.a. til að meta hvort hann sé nægilega hraustur til að geta ferðast eða skapi hugsanlega hættu fyrir heilbrigði annars fólks“.
Skoðunin geti náð yfir athugun heilbrigðisskjala og líkamsskoðun, s.s. með töku blóð- og þvagsýna og önnur lífsýni úr viðkomandi og rannsaka þau, „svo og að framkvæma á honum aðra þá líkamsrannsókn sem þörf er á til að tryggja framkvæmd ákvörðunar og gerð verður honum að meinalausu“. Neiti útlendingur að undirgangast heilbrigðisskoðun og læknisrannsókn er lögreglu heimilt að bera kröfu um skylduna fyrir dómara.
„Ef þetta gengur í gegn í þessu frumvarpi tel ég það mjög hættulegt fordæmi og með því væri íslenska ríkið að nota heilbrigðisstarfsfólk í pólitískum tilgangi til þess að brjóta mannréttindi jaðarsetts hóps,“ skrifar Anna Kristín í umsögninni. „Einnig opnar frumvarpið á þann möguleika að heilbrigðisstarfsfólk eigi að framvísa trúnaðarupplýsingum um einstaklingana til lögreglunnar. Það er gífurlega alvarlegt og brýtur ekki einungis á réttindum flóttafólks til óháðrar heilbrigðisþjónustu heldur brýtur það í bága við skyldur heilbrigðisstarfsfólks sem eiga að vera málsvarar sinna skjólstæðinga, líkna þá og lækna. Heilbrigðisstarfsfólk á ekki að vera sett í þá stöðu að framfylgja landamærastefnu íslenska ríkisins en ef þetta frumvarp gengur í gegn verður það sannarlega sorgleg og hættuleg þróun.“
Vegið „harkalega“ að grundvallarrétti fólks
Marta Jóns Hjördísardóttir hjúkrunarfræðingur minnir í umsögn sinni á að fólk á flótta og umsækjendur um alþjóðlega vernd sé „einn af okkar viðkvæmustu samfélagshópum. Í þessu frumvarpi er vegið harkalega að grundvallar rétti þeirra til öruggrar heilbrigðisþjónustu“.
Hún skrifar að sjúklingur eigi rétt á þjónustu sem miðast við ástand hans og horfur á hverjum tíma, byggt á bestu þekkingu sem völ er á. Vitnar hún í lög um réttindi sjúklinga þar sem segi: „Virða skal rétt sjúklings til að ákveða sjálfur hvort hann þiggur meðferð… enga meðferð má framkvæma án samþykkist sjúklings“.
Í fyrirliggjandi frumvarpi sé lögreglu hins vegar gefin heimild til að „neyða sjúklinga til að gangast undir heilbrigðisskoðun og læknisrannsókn. Það hlýtur að stangast á við rétt sjúklings um að ákveða sjálfur hvort hann þiggur meðferð“.
Þá sé einnig ætlunin með frumvarpinu að tryggja lögreglu heimild til að afla heilsufarsupplýsinga frá heilbrigðisyfirvöldum og „neyða heilbrigðisstarfsfólk til að afhenda slíkar upplýsingar“.
Marta bendir á að í siðareglum hjúkrunarfræðinga er hjúkrunarfræðingi gert skylt að hafa samráð við skjólstæðing sinn og virða rétt hans til að taka ákvarðanir um eigin meðferð auk þess sem hjúkrunarfræðingur standi vörð um réttindi skjólstæðings til einkalífs og gætir trúnaðar og þagmælsku. „Verði þetta frumvarp að lögum vegur það harkalega að rétti fólks á flótta til grunn heilbrigðisþjónustu,“ skrifar hún. „Ég tel það vera skyldu okkar að byggja lagaumhverfi okkar upp þannig að það þjóni okkar viðkvæmustu samfélagshópum á sem bestan hátt.
Við eigum öll skilið gott aðgengi að bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu.“
Heimilislækni misboðið
Pétri Heimissyni heimilislækni finnst innihald þessarar tilteknu greinar frumvarpsins „andstætt og misbjóða ýmsu því sem ég hef sem heilbrigðisstarfsmaður, læknir í áratugi átt að venjast“. Hann telur of langt gengið í að þvinga fólk til að sæta rannsókn „og svo mjög að erfitt geti orðið fyrir heilbrigðisfagfólk að sinna verkbeiðnum samkvæmt þessu enda geti slíkt verið andstætt siðareglum viðkomandi“.
Hann segir í umsögn sinni að engu líkara sé þó en að í frumvarpinu sé einmitt fyrir því hugsað með eftirfarandi setningarhluta: „Með heilbrigðisskoðun og læknisrannsókn er átt við mat á einstaklingi sem viðurkenndur heilbrigðisstarfsmaður framkvæmir eða annar aðili sem er til þess bær að ákvarða heilbrigðisástand viðkomandi....“
„Þessi opnun á að annar en „viðurkenndur heilbrigðisstarfsmaður“ annist skoðun/rannsókn er að mati Péturs „sérlega alvarleg“ í ljósi þess hvað um skoðunina sjálfa segir í frumvarpinu: „Skoðunin getur náð yfir athugun heilbrigðisskjala sem og líkamsskoðun eftir því sem réttlætanlegt er miðað við aðstæður í hverju tilviki, s.s. með töku blóð- og þvagsýna og önnur lífsýni úr viðkomandi og rannsaka þau, svo og að framkvæma á honum aðra þá líkamsrannsókn sem þörf er á til að tryggja framkvæmd ákvörðunar og gerð verður honum að meinalausu.“
Pétri finnst „andi þessarar greinar í andstöðu við mannvirðingu og mennskuna sjálfa og í raun vera skref í átt að lögregluríki“.
Víðtækt inngrip í friðhelgi einkalífsins
Rauði kross Íslands skilaði ítarlegri umsögn um frumvarpsdrögin, m.a. um hina umdeildu 19. grein. Hvað skyldu útlendings til að undirgangast heilbrigðisskoðun eða læknisrannsókn varðar bendir Rauði krossinn á að slíkt feli í sér „víðtækt inngrip í friðhelgi einkalífs fólks“ og þurfa að mati samtakanna ákveðin skilyrði því að vera uppfyllt svo lagasetning sem þessi standist stjórnarskrá og alþjóðaskuldbindingar.
„Þegar greinargerð við frumvarpið er skoðuð telur Rauði krossinn ljóst að markmiðið með því að skylda einstaklinga í líkamsrannsókn og/eða heilbrigðisskoðun fellur ekki undir þau markmið sem stjórnarskrá og mannréttindasáttmáli Evrópu telja lögmæt [...] Markmiðið virðist vera að unnt sé að vísa einstaklingum úr landi á sem skilvirkastan hátt eftir að ákvörðun Útlendingastofnunar eða úrskurður kærunefndar útlendingamála liggur fyrir. Fær Rauði krossinn ekki séð að það markmið eitt og sér geti talist lögmætt enda ekki nauðsynlegt vegna þjóðaröryggis, almannaheilla eða efnahagslegrar farsældar þjóðarinnar, til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu manna, siðgæði eða réttindum og frelsi annarra.“
COVID-19 er tímabundið ástand
Takmarkanir á mannréttindum mega ekki ganga lengra en nauðsynlegt er svo að markmið þeirra náist, segir RKÍ í umsögn sinni. Takmarkanir þurfa að vera í samræmi við meðalhófsreglu.
Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að við undirbúning og gerð þess hafi sérstaklega verið litið til þess hvort önnur vægari úrræði væru tæk. Í þessu sambandi er sérstaklega fjallað um þær áskoranir að útlendingar, sem fengið hafa synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd, neiti að undirgangast PCR-sýnatöku og komi þannig í veg fyrir framkvæmd flutnings.
Segir í frumvarpinu að þrjár leiðir hafi verið kannaðar en að mati frumvarpshöfunda nái engin þeirra því markmiði sem stefnt væri að og því sé nauðsynlegt að kveða á um skyldu útlendings til þess að gangast undir sýnatöku, með lögregluvaldi ef þörf krefur.
Hvað PCR-próf varðar sérstaklega bendir Rauði krossinn á að farsótt líkt og COVID-19 er tímabundið ástand og „ekki má nýta það til þess að lögfesta ákvæði til frambúðar sem skerða mannréttindi einstaklinga á svo víðtækan hátt“.
Einnig gerir Rauði krossinn athugasemdir við orðalag ákvæðisins þess efnis að heilbrigðisstarfsmaður eða annar aðili sem er til þess bær skuli ákvarða heilbrigðisástand viðkomandi. „Rétt væri að tiltaka sérstaklega hvaða aðrir aðilar en heilbrigðisstarfsfólk séu til þess bærir að ákvarða heilbrigðisástand eigi það að koma til álita að aðrir aðilar framkvæmi slíkt mat“.
Geti átt von á frelsissviptingu
Í umsögn lögmannsstofunnar Claudia & Partners er gerð „mjög alvarleg athugasemd“ við að lögreglan megi þvinga umsækjendur um alþjóðlega vernd í heilbrigðisskoðun. „Neitar umsækjandi að gangast undir slíkt próf, má vænta þess að málið verði meðhöndlað á grundvelli laga um meðferð sakamála og að lögregla megi krefjast gæsluvarðhaldsúrskurðar yfir einstaklingum sem geta átt von á frelsissviptingu í allt að tvær vikur,“ segir í umsögninni.
„Í ljósi núgildandi framkvæmdar þar sem einstaklingar sem í raun eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu, m.a. vegna fötlunar, alvarlegrar andlegrar eða líkamlegrar heilsu eru ekki metnir sem slíkir.“ Sömu einstaklingar verði líklegir til þess að verða frelsissviptir og gert að sæta gæsluvarðhaldi m.a. í fangelsinu á Hólmsheiði.
Við hin heppnu
„Það er ófrávíkjanleg staðreynd að flóttafólk og umsækjendur um alþjóðlega vernd eru einn af þeim samfélagshópum sem er hvað viðkvæmastur,“ skrifar hjúkrunarfræðingurinn Anna Kristín í umsögn sinni. „Því ætti hverskyns lagafrumvarp um þennan hóp að hverfast um að standa vörð um þeirra réttindi til mannsæmandi lífs. Þetta frumvarp vegur hins vegar að friðhelgi þessa einstaklinga með því að svipta þeim ákveðnum grundvallarmannréttindum sem við, hin heppnu sem fæðumst í friðsælu og auðugu landi tökum sem gefnum.“